140. löggjafarþing — 3. fundur,  4. okt. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[17:04]
Horfa

Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil minna á að við lækkuðum líka skatta á t.d. láglaunafólk og hluti af skattbreytingunni var einfaldlega til að leiðrétta þá vitleysu sem farið var út í á sínum tíma þegar skattar á hátekjufólk voru lækkaðir en auknir á lágtekjufólk. Ég trúi því að hv. þm. Illugi Gunnarsson sé meiri jafnaðarmaður en ójafnaðarmaður í þessu efni, miðað við málflutning hans.

Margir sérfræðingar hafa komið fyrir fjárlaganefnd á undanliðnum vikum, þar á meðal sérfræðingur úr Seðlabankanum, og þeir halda því fram að við munum ekki ná því hagvaxtarstigi sem var mest fyrir hrun á allra næstu árum. Menn eru jafnvel að tala um að á næstu tíu árum verði hagvöxtur á borð við 5% eða þaðan af meira ekki raunhæfur, einfaldlega vegna þess að við löskuðum atvinnulífið það mikið með útlánaþenslunni á sínum tíma að sá hagvöxtur sem við lifðum við fyrir hrun kemur ekki aftur. Ég vil því spyrja hv. þingmann hvaða hagvaxtartölur hann sér í framtíðinni. (Forseti hringir.) Telur hann koma til greina að hagvöxtur fari upp í 6–7% á ný, fljótt og vel?