140. löggjafarþing — 3. fundur,  4. okt. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[17:34]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S):

Virðulegi forseti. Hér var rætt um hagvöxt og hversu hratt ríki geta vaxið. Því er kannski ekki úr vegi að ég byrji á að minnast aðeins á hvernig hagfræðin lítur á þessi mál. Ljóst er að land þar sem er mikill framleiðsluslaki, þ.e. þar sem framleiðsluþættirnir, vinnuaflið og fjármagnið, eru vannýttir eins og á Íslandi þar sem er mikið atvinnuleysi og þar sem framleiðsla hefur dregist saman og fjárfesting er í sögulegu lágmarki, hefur mikla möguleika til að vaxa hratt fyrstu árin eftir að slíkur framleiðsluslaki hefur orðið. Ég held að Ísland ætti hæglega að geta vaxið á svona milli 4 og 5% hraða í þrjú, fjögur ár en síðan, nákvæmlega eins og hv. þm. Helgi Hjörvar minntist á í ræðu áðan, mun hagvöxturinn fara niður í kannski 2,5%. Það hagvaxtarstig samræmist þeirri fólksfjölgun sem við Íslendingar þekkjum og sögunni. Ef hagvöxtur verður miklu meiri kemur það út í framleiðsluspennu sem leiðir til þenslu og verðbólgu og yfirhitnunar hagkerfisins. Margra ára hagvaxtarskeið á milli 4 og 5% gengur ekki upp nema gangverkið láti á sjá. Að því leyti hefur hv. þingmaður rétt fyrir sér. Aftur á móti er hægur vandi að láta Ísland vaxa á milli 4 og 5% hraða á næstu árum ef fjárfesting er örvuð og umhverfi fyrir atvinnulíf er gott.

Þá vík ég að frumvarpi til fjárlaga. Það sem mig langar til að gera að umræðuefni eru í fyrsta lagi forsendur frumvarpsins og hins vegar tekjuhliðin í frumvarpinu. Það er ljóst að skattbyrði hefur þyngst mjög á Íslandi og ef maður lítur á bls. 9 í fylgiriti sem heitir Ríkisbúskapurinn 2012–2015 sést að skattbyrðin þyngdist um 23,7 milljarða árið 2009, 51,1 milljarð árið 2010, 15,2 milljarða árið 2011 og áætlað er samkvæmt fjárlagafrumvarpi að skattbyrðin þyngist um í kringum 18 milljarða á næsta ári. Það er því ljóst af þessu að mikill þungi er lagður á fólk og fyrirtæki í landinu. Í sjálfu sér leiðir það til minni umsvifa og veikari skattgrunna og til þess að ráðstöfunartekjur heimila skerðast og fjárfestingarvilji fyrirtækja minnkar.

Ef við förum sérstaklega yfir þær skattahækkanir sem eru boðaðar í frumvarpinu skiptast þær í þrjá flokka, þ.e. almennar skattahækkanir, svo sem skattur á eldsneyti, skattur á heitt vatn og auðlegðarskattur. Vísitöluáhrifin af almennu hækkununum eru í kringum 1% sem þýðir með öðrum orðum að ráðstöfunartekjur heimilanna munu skerðast um 1% út af þessu og skuldir heimilanna munu hækka í kringum 14–15 milljarða á næsta ári bara vegna þessa. Þeir skattar sem ég taldi hér upp eða tveir þeirra, þ.e. eldsneytið og heita vatnið, koma í gegnum kolefnaskattana.

Þá er það skattur á atvinnulífið. Í fyrsta lagi er það hinn nýi skattur, fjársýsluskattur, sem áætlaður er að verði 10,5% af launum sem eru greidd í fjármálakerfinu. Þarna kemur fram sú nýbreytni að lífeyrissjóðir verða skattlagðir þannig að ávöxtun lífeyrissjóða og geta þeirra til að greiða lífeyri í framtíðinni verður ekki jafnmikil og ella. Það eru í kringum 4,5 milljarðar sem þessi skattur á að skila.

Ég var í andsvari áðan við hv. þm. Helga Hjörvar sem benti á að auðvitað væri sjálfsagt að setja virðisaukaskatt á fjármálafyrirtæki en ég er hræddur um að það komi atvinnulífinu og heimilunum verr en fjármálafyrirtækjunum sjálfum.

Síðan er boðaður skattur á útgerð, þ.e. að veiðileyfagjaldið verði hækkað. Það mun þá draga úr fjárfestingarvilja þeirra en það er kannski ekki mikið að draga úr. Fjárfestingar í sjávarútvegi eru í algjöru lágmarki, fjárfesting er í kringum 2% af brúttótekjum en hefur yfirleitt verið í kringum 9%. Fjárfesting í útgerð er 4,5 milljarðar um þessar mundir en yfirleitt er þetta í kringum 18, 19 og upp í 20 milljarðar.

Svo er það kolefnaskatturinn. Ég býst við, án þess að hafa séð útfærslu á honum, að hann þýði að stóriðjan muni í gegnum kolefnisnotkun sína, rafskaut og slíkt, þurfa að bera hærri skatta og að kolefnisgjald á dísilolíu hjá verktökum og í öðru slíku muni hækka. Það vantar útfærsluna þannig að ég get raunverulega ekki tjáð mig nákvæmlega um þetta fyrr en hún liggur fyrir.

Þá er það frádráttarbærni iðgjalda. Hv. þm. Helgi Hjörvar lýsti því yfir að það væri skrýtin latína að spara núna á meðan gengur á þeim hörmungum sem við lifum. Þess vegna væri eðlilegt að hrekja fólk úr sparnaði yfir í það að neyta meira. Ég er ekki viss um að þetta sé klók stefna hjá hv. þingmanni og sem lýst er í þessum bæklingi sem fylgir fjárlagafrumvarpinu. Ég held að það sé mjög æskilegt að auka sparnað hér á landi vegna þess að sparnaður mun á endanum enda sem fjárfesting þegar við höfum fjármálakerfi sem ræður við að þjóna okkur.

Þá er í þessu frumvarpi talað um hvernig skuldir muni þróast og annað slíkt. Það sem vekur athygli mína er að þrátt fyrir loforð um að hér sé allt að fara á betri veg, við séum að fara að borga niður skuldir og annað slíkt, virðist með því að skoða mynd á bls. 74 sem hrein skuldastaða ríkissjóðs muni ekki batna neitt fram til 2015, að hrein skuldastaða okkar muni versna úr því að vera jákvæð árið 2007 yfir í það að vera neikvæð upp á nærri 50% af landsframleiðslu árið 2015.

Að lokum langar mig til að minnast aðeins á það að hér tala menn um stórkostlegar framfarir, tala um framfarir í ríkisfjármálum og taka þennan tímapunkt 2008/2009 þegar tap Seðlabankans var leitt inn í ríkissjóð og miða árangurinn í dag við hallann sem var þá. Reyndar vil ég segja það að ein af stærstu mistökunum sem núverandi ríkisstjórn hefur gert voru þau að leiða afskriftir á þeim lánum inn í ríkisreikning. Það voru alveg — ég ætla ekki að fara að segja einhver stór orð núna en það voru mikil mistök þessi ástarbréf upp á 345 milljarða. Seðlabankinn tók 72 milljarða af þeim, síðan voru 270 milljarðar færðir yfir í fjármálaráðuneytið. Þar voru afskrifaðir 180 milljarðar og síðan voru 90 milljarðar færðir yfir í Seðlabankann aftur. Þetta held ég að hafi verið gríðarlega mikil mistök. Mistökin felast í því að átta sig ekki á að það skiptir engu máli hvort krónustaða Seðlabankans (Forseti hringir.) er jákvæð eða neikvæð. Seðlabankinn hefur peningaprentunarvaldið og (Forseti hringir.) það er ofur eðlilegt að það sé neikvæð krónustaða á einhverjum tíma. Það að taka þetta inn í ríkisreikning og láta (Forseti hringir.) ríkisfjármálin bera þessa byrði voru mikil mistök.