140. löggjafarþing — 3. fundur,  4. okt. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[17:51]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er sem mig grunar að ég og hv. þm. Helgi Hjörvar erum sammála um að styrkja þarf grunninn undir sjávarútveginum til þess að sem mest verði úr auðlindarentunni og til að skattstofninn sem hv. þingmaður vill hafa þar fyrir veiðigjald verði til, að honum verði ekki eytt á altari óhagkvæmni og vanhugsaðra aðgerða.

Hvað varðar meginspurningu hv. þingmanns, hvort ég hafi hugmyndir um hvernig vinna skuli á skuldastöðu ríkissjóðs, vil ég svara þingmanninum þessu: Já, við sjálfstæðismenn höfum undanfarið unnið að efnahagstillögum sem gera ráð fyrir að þetta skuldahlutfall muni minnka jafnt og þétt — það byrjar á árinu 2013 og mun jafnt og þétt vinnast á því og að við verðum komin í bærilega skuldastöðu eftir um það bil átta ár, þ.e. við verðum þá komin vel innan við þessi 60% sem oft er miðað við sem þumalputtareglu.

Af því hv. þm. Þór Saari stendur hér og hlustar á umræðuna, verð ég nú bara að segja, og ganga í lið með hæstv. fjármálaráðherra, að ég skil ekkert þetta tal sem er í hv. þingmanni um að ríkissjóður sé að fara á hausinn. Ég verð bara að nota þetta tækifæri til þess að reka það ofan í hv. þingmann fyrst ég sé hann hér í salnum og ég í ræðustól.