140. löggjafarþing — 3. fundur,  4. okt. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[18:02]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (U):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að taka undir margt af því sem hv. þm. Skúli Helgason sagði um menntamál og kvikmyndagerð, og ekki síst um eflingu græna hagkerfisins, en ég sat með hv. þingmanni í þeirri nefnd sem hann minntist á. Ég tel raunar að sú nefnd hafi skilað mörgum tillögum sem eiga mjög brýnt erindi í alla þá umræðu sem hér hefur farið fram um atvinnusköpun og annað slíkt og til að auka sjálfbæran hagvöxt í samfélaginu.

Ég ætla að segja hér nokkur almenn orð um fjárlögin og hugsa kannski líka upphátt um einstaka liði sem ég tel að við þurfum að skoða betur.

Fyrst vil ég segja þetta. Ég hef ekki verið einn af þeim sem hafa haft uppi stór orð um fjárlög undanfarinna ára eða hrópað hátt um óréttmæti skattahækkana eða niðurskurðar, þó maður hafi vissulega fett fingur út í eitt og annað. Mér hefur fundist nauðsynlegt að sýna fjárlagagerð undanfarinna ára vissan skilning. Það gerðust ákveðnir hlutir í íslensku samfélagi og það blasti við að skera þurfti niður og hækka skatta. Það blasti líka við að ýmislegt í aðdraganda hrunsins gerði stöðuna erfiðari en ella. Á góðæristímanum höfðu t.d. skattar verið lækkaðir ansi mikið sem gerði að verkum að erfitt var að gera það að fyrstu viðbrögðum við hruni efnahagslífsins að lækka þá enn þá meira. Og í aðdraganda hrunsins hafði ríkið líka þanist út þannig að það var kannski dálítið erfitt að skera ekki niður þegar fjármálakerfið hrundi. Ég hef því haft skilning á þessu. Mér virðist full ástæða til að hrósa hæstv. fjármálaráðherra fyrir að hafa staðið í lappirnar í þessu erfiða verki. Mér finnst að mörgu leyti bjartara fram undan í ríkisrekstrinum en oft áður þegar ég les fjárlögin núna, mér finnst við jafnvel vera að sjá til lands. En þá finnst mér líka mikilvægt að við ræðum á þessum tímapunkti til hvaða lands við ætlum að sigla og hvert við erum að fara.

Að þessu sögðu vil ég líka taka undir gagnrýni um að hér hafi ekki tekist að byggja upp tilhlýðilegan hagvöxt. Atvinnusköpun finnst mér hafa gengið brösuglega. Ég held þó að gagnrýni mín sé þó ekki algjörlega á sömu nótum og t.d. gagnrýni hv. þm. Illuga Gunnarssonar áðan. Mér finnst oft skína í gegn ákveðin óþreyja í þeim sem vilja blása til atvinnusköpunar á Íslandi og sú óþreyja finnst mér lýsa sér í því að menn telji á einhvern hátt skynsamlegt að rjúka í virkjanir og selja þær jafnvel einum stórkaupanda sem síðan skapar kannski 500–600 störf og gera þetta kannski á tveimur stöðum á landinu, verja til þess 1.000–1.100 megavöttum. Mín spurning er einfaldlega: Ef við förum þessa leið, sem mér finnst ekkert ævintýralega skynsamleg, hvað svo? Hvað mundum við gera næst ef kreppa yrði?

Við höfum jú þessa hreinu orku, hún er til staðar, við þurfum að virkja hana, en mér finnst miklu skynsamlegra að nýta sér t.d. tillögur nefndar um eflingu græna hagkerfisins og sjónarmið fleiri sem hafa mælt fyrir því að við eigum að reyna, og mér sýnist margt í stefnu Landsvirkjunar benda til að þeir séu að hugsa það sama, að búa til einhvers konar pott hreinnar orku á Íslandi sem nýtist til fjölbreytilegrar atvinnusköpunar. Ég hef þá trú að það verði grænn iðnaður, orkusparandi iðnaður, iðnaður 21. aldarinnar, sem vill borga hæst verð fyrir þá orku. Mér hefur fundist skorta að við tölum skýrt í þessum sal um að við viljum fara þá leið. Mér finnst menn rjúka of oft upp og biðja um atvinnustefnu, atvinnusköpun, sem felst í því að við rjúkum í hvelli og seljum orkuna með afslætti einum, tveimur stórum kaupendum og sköpum með því eitthvert fyrir fram ákveðið magn starfa á afmörkuðum stöðum á landinu.

Þá breiðu nálgun sem ég fer fram á að við tileinkum okkur gagnvart orkunni mundi ég vilja sjá á öllum sviðum atvinnuuppbyggingar. Til dæmis í landbúnaði. Við verjum 11 milljörðum í að framleiða eiginlega bara lambakjöt og til mjólkuriðnaðar. Við verjum þar mjög miklum peningi í mjög afmarkaða framleiðslu. En við vitum að í landbúnaði eru fjölmörg tækifæri, það er hægt að byggja upp mjög fjölbreytilegan iðnað og framleiðslu í landbúnaði. Verðum við ekki að fara að spyrja okkur: Er þessum peningum kannski betur varið í mun fjölbreyttari nálgun? Við þurfum að gera þetta á öllum sviðum.

Síðan þurfum við náttúrlega að eyða óvissu. Ég held að gjaldmiðilsmál séu eitthvað sem við þurfum að fara í af mikilli festu til að skapa stöðugan grundvöll undir samfélagið og þar með grundvöll fyrir raunverulegan hagvöxt. Ég held að margir haldi að sér höndum, einfaldlega út af óvissu. Ég tek undir að það þarf líka að eyða óvissu í sjávarútveginum. Ég er ekkert ýkja hrifinn af þeim leiðum sem koma t.d. fram í frumvarpi hæstv. sjávarútvegsráðherra, ég tel að við þurfum að fara aðrar leiðir.

Í fjárlagafrumvarpinu eru einstakir liðir sem ég hef meiri áhyggjur af en öðrum. Margir hafa nefnt Landspítalann. Mér finnst full ástæða til að hafa miklar áhyggjur þegar forstjóri Landspítalans segir núna að loka verði deildum ef þessi niðurskurður eigi að fara fram. Mér finnst sá aðili hafa hingað til sýnt mikla ábyrgð. Mér finnst Landspítalinn hafa tekið mjög faglega á niðurskurðarkröfum hingað til og sýnt góðan árangur í því. Ef forstjóri Landspítalans segir núna að lengra verði ekki gengið og í ljósi þeirrar ábyrgðar sem hann hefur sýnt hingað til, finnst mér að við eigum að leggja við hlustir. Þetta finnst mér stórpólitískt mál. Ef 600 millj. kr. niðurskurður til Landspítalans þýðir að við þurfum að loka deildum, finnst mér eiginlega varla forsvaranlegt að við vísum þeirri ábyrgð eitthvert annað. Verðum við ekki að ræða það hér hvaða deildum á að loka? Við viljum heilbrigðiskerfi á heimsmælikvarða en ég held að við séum komin að mjög átakanlegum sársaukamörkum í þessu.

Þetta sjáum við líka í innkaupum á lyfjum. Við höfum örugglega, held ég og maður heyrir þau sjónarmið vel rökstudd víða, dregist aftur úr þegar kemur að lyfjameðferð á Íslandi. Við höfum breytt viðmiðum okkar í innkaupum á S-merktum lyfjum. Við erum farin að miða innkaup okkar í þeim efnum við mun afturhaldssamari þjóðir en áður. Við höfum ekki sama aðgang að lyfjatilraunum og aðrar þjóðir, þannig að við sitjum ekki við sama borð. Í þessari umræðu styðjumst við oft við tölur um góðan árangur í krabbameinslækningum en þær tölur eru frá 1999 og 2001, þær eru orðnar tíu ára gamlar. Mér finnst að við verðum að skoða þetta vel í fjárlagavinnunni. Það er einfaldlega pólitík lífs og dauða, hvort við ætlum að bjóða upp á verri lyfjameðferðir en aðrar þjóðir. Það má skoða vel hvort þau sjónarmið séu rétt að við höfum dregist aftur úr í þessu.

Svo vil ég að næstsíðustu tala um Fæðingarorlofssjóð. Það slær mig að í frumvarpinu er talið alveg ágætt að það sé svigrúm til að skera niður um einn milljarð til Fæðingarorlofssjóðs vegna þess að áætlanir síðasta árs gefi tilefni til þess. Það er náttúrlega búið að vega það mikið að sjóðnum að ákveðinn hópur fólks er, held ég, hættur að taka fæðingarorlof. Ég held að við ættum frekar að setja þennan milljarð aftur í sjóðinn og reyna að bæta hann.

Svo vil ég líka segja nokkur orð um vörugjöld. Ég held að þau séu mjög óskynsamleg og ógagnsæ. Ég held að þurfi að fara í saumana á þeim. Og varðandi umræðuna áðan um vörugjöld og raunhækkanir og nafnhækkanir á þeim (Forseti hringir.) finnst mér skjóta skökku við að við skulum hafa það sem reglu að hækka vörugjöld miðað (Forseti hringir.) við verðlag hvers árs, vegna þess að vörugjöldin hækka síðan auðvitað verðlagið (Forseti hringir.) og það leiðir til pínlegrar hringavitleysu í hagkerfinu.