140. löggjafarþing — 3. fundur,  4. okt. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[18:13]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þm. Guðmundi Steingrímssyni fyrir ágæta ræðu að mörgu leyti um fjárlagafrumvarpið og sýn hans á það. Hv. þingmaður fjallaði aðeins um heilbrigðiskerfið og í hvaða stöðu það væri að hans mati miðað við þá leið sem við erum á og þær aðgerðir sem gripið hefur verið til í fjárlögum undanfarinna ára. Það er auðvitað okkar hlutverk á Alþingi að fara yfir þær tillögur sem koma fram í fjárlagafrumvarpinu, gera á þeim bætur eða breyta þeim í þá veru sem við teljum að fari betur á að gera að því tilskildu að við náum þeim markmiðum sem við ætlum að setja okkur og það má þá kannski gera eitthvað annað á öðrum liðum o.s.frv.

Ég vil hins vegar mótmæla þeim orðum hv. þingmanns eða í það minnsta biðja hann að rökstyðja þau betur en hann gerði áðan að við værum að miða lyfjainnkaup og lyfjanotkun á sérmerktum lyfjum, sem eru vissulega lyf sem eru notuð við erfiðum veikindum, við — ég man ekki hvernig orðalagið var — við aðrar þjóðir eða verri skilyrði eða eitthvað í þá áttina en hefur verið. Ég kannast ekki við að það hafi verið gert. Hins vegar hafa verið settar viðmiðunarreglur um það hvernig á að innleiða kaup á slíkum lyfjum. Það erum við bara að gera nákvæmlega eins og aðrar þjóðir gera í kringum okkur. Við erum ekki að draga úr öryggi hvað þetta varðar.

Ég vil að lokum í þessu sambandi vara við ummælum af því tagi sem hv. þingmaður notaði hér að þetta væru málefni lífs og dauða og við ættum að taka ákvarðanir úr þessum ræðustól hvaða deildum ætti að loka í þeim tilgangi og með það hugarfar að vopni eins og mér fannst skína í gegn (Forseti hringir.) úr annars ágætri ræðu þingmannsins.