140. löggjafarþing — 3. fundur,  4. okt. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[18:34]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér er vandi á höndum vegna þess að hv. þingmaður lagði mér svo mörg orð í munn og jafnvel Framsóknarflokknum í heild sinni að mér er til efs að ég geti svarað honum þannig að mér sé sómi að. Ég tel mig ekki hafa minnst á nokkurn af þeim hlutum sem hv. þingmaður ræddi.

Við munum að sjálfsögðu eins og við gerðum í fyrra leggja fram tillögur okkar eins og aðrir stjórnarandstöðuflokkar til fjárlagagerðarinnar. Við lögðum aðrar tekjuöflunarleiðir fram í fyrra en sú afkastamesta er náttúrlega að reyna að örva fjárfestingu og auka hagvöxt. Mig langar til að lesa úr spá Seðlabanka Íslands en þar er sagt, með leyfi forseta:

„Í spánni er gert ráð fyrir 1,6% hagvexti árið 2012“ — miklu lægra en sú hagvaxtarspá sem þessi fjárlög byggjast á — „og er það minni hagvöxtur en spáð var í apríl. Má það helst rekja til framhlaðnari einkaneysluferils auk seinkunar stóriðjuframkvæmda.“

Við lögðum líka til í fyrra, svo að ég reyni að svara einhverju sem kom fram hjá hv. þm. Helga Hjörvar, að farið yrði í flatan niðurskurð í heilbrigðiskerfinu. Gagnrýni okkar beindist fyrst og fremst að því að það væri verið að stokka upp og gjörbylta heilbrigðiskerfi sem fékk annars mjög góða einkunn hjá OECD fyrir um þremur árum. Einkunn OECD þegar þeir gerðu úttekt á heilbrigðiskerfi þjóðarinnar var að það væri ekki bara gott heldur væri það lofsvert og aðrar þjóðir ættu að taka sér það til fyrirmyndar. (Forseti hringir.)

Ég held að ef hv. þingmaður er sanngjarn fallist hann á það með mér að það er verið að gjörbylta heilbrigðiskerfinu (Forseti hringir.) bæði núna og í fyrra.