140. löggjafarþing — 3. fundur,  4. okt. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[18:37]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið og bið hann velvirðingar á því ef ég hef lagt honum orð í munn og geng þá eftir því hvort það sé réttur skilningur að hann hyggist ekki leggja til aukin útgjöld eða fallið verði frá þeim niðurskurðaráformum sem endurspeglast í fjárlögunum. Ef við eigum að tala um hlutina eins og þeir eru þá hvílir þetta frumvarp á hagvaxtarspá sem er allnokkuð hærri en ýmsir spáaðilar hafa verið að gefa fyrir næsta ár eða 3,1% sem er verulegur hagvöxtur, umtalsvert meiri en í mörgum af nágrannaríkjum okkar en engin teikn eru á lofti um stórfelldar erlendar fjárfestingar eða nýfjárfestingar í atvinnulífinu sem skapi meiri tekjur eða töfri eitthvað niður úr loftinu.

Ég held að ég hafi ekki verið að leggja Framsóknarflokknum nein orð í munn í því að hann hafi talið að við værum komin að endimörkum í skattheimtu í landinu og gætum þess vegna ekki mætt því á tekjuhliðinni ef fallið yrði frá niðurskurðartillögum þeim sem hér eru fram settar í fjárlögum.

Það væri gott og fagnaðarefni ef hv. þingmaður staðfesti það að hann mundi ekki leggja til frekari útgjöld í heildina en gert er ráð fyrir í þessum fjárlögum. Auðvitað geta menn gert tillögu um að hækka á einum stað ef þeir lækka á öðrum en þá verð ég líka að spyrja hv. þingmann um það hvort hugmyndin um að skera jafnt niður hlutfallslega, flatt í öllu heilbrigðiskerfinu sem ég veit ekki hversu skynsamlegt er, feli það í sér að ganga eigi lengra í að skera niður á Landspítalanum en hér er gert ráð fyrir og ganga þá skemur gagnvart öðrum heilbrigðisstofnunum og hvort það sé réttur skilningur því að ég vil ekki leggja hv. þingmanni orð í munn.