140. löggjafarþing — 3. fundur,  4. okt. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[18:43]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í fyrri ræðu minni viðurkenndi ég það sem blasir við öllum að hér varð bankahrun og ríkissjóður varð fyrir áfalli. Ég hrósaði líka hæstv. fjármálaráðherra og sagði að ekki yrði af honum tekið að hann hefur verið duglegur. Hann hefur einn staðið í stappi við að reyna að koma böndum á ríkissjóð. Það hefur tekist varðandi frumjöfnuðinn en það hefur ekki tekist varðandi neina aðra þætti, t.d. heildarjöfnuðinn, hagvöxtinn og verðbólguna. Þetta eru stærstu þættirnir sem ég held að verði að koma fram.

Ég hef ekki sagt í ræðum mínum að ekki beri að vernda þá sem minna mega sín í samfélaginu. Ég er reyndar sammála því að þeir tekjumeiri eigi að taka á sig stærri hluta af byrðinni. En það er röng túlkun að mínu mati að þeir sem eru efnaminni hafi ekki líka þurft að taka á sig skerðingu og skattahækkanir. Því verður að halda til haga jafnvel þó að þær hafi ekki verið eins miklar og hjá þeim sem eru efnameiri.

Niðurskurðurinn í heilbrigðismálum er á ábyrgð þessarar ríkisstjórnar. Það er á ábyrgð hennar og engra annarra að verið er að gjörbylta heilbrigðiskerfi landsmanna. Það sem ég held að hæstv. velferðarráðherra ætti frekar að gera er að taka verulega til í velferðarráðuneytinu vegna þess að þegar niðurskurðartillögurnar komu fram í fyrra kom í ljós að menn vissu nánast ekkert út á hvað starfsemin gekk á mörgum stöðum og (Forseti hringir.) þess vegna var hlutunum breytt.