140. löggjafarþing — 3. fundur,  4. okt. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[18:48]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svör hans og þær fyrirspurnir sem hann leggur fyrir mig.

Ég ætla að segja eitt til að byrja með: Þegar ákvörðun var tekin um að skera niður í heilbrigðisþjónustu um allt land þá var það gert áður en vinna fór af stað við það að meta hver árangurinn yrði af niðurskurðinum. Sú ákvörðun er enn til staðar. Það var lagt af stað með stefnu um að skera niður, eins og hjá Heilbrigðisstofnun Þingeyinga, Heilbrigðisstofnuninni Sauðárkróki, Heilbrigðisstofnun Vestfjarða og víðar, án þess að gert hefði verið mat á því hvort niðurskurðurinn mundi skila tilætluðum árangri. Eins og hæstv. velferðarráðherra benti réttilega á verður að vega og meta flutningskostnað og það að þurfa að sækja þjónustuna um langan veg. Ég held að það vegi hve þyngst svo ekki sé talað um það álag sem er t.d. núna á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri sem er undirmannað.

Í fjárlagafrumvarpinu fyrir árið 2011 lagði ég fyrir hönd Framsóknarflokksins fram ítarlega greinargerð um það hvernig við mundum vilja haga niðurskurðinum í heilbrigðismálum. Ég get sagt það við hæstv. velferðarráðherra Guðbjart Hannesson að við munum vera á sömu slóðum hvað það varðar. Okkar stefna hefur verið skýr. Við vitum að það hefur þurft að skera niður og afla tekna með einhverjum hætti (Forseti hringir.) en við höfum líka sagt að við hefðum gert það með allt öðrum hætti en núverandi ríkisstjórn er að gera.