140. löggjafarþing — 3. fundur,  4. okt. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[18:50]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Frú forseti. Ég vil í upphafi ræðu minnar minna á að sá vandi sem við Íslendingar stöndum frammi fyrir er um margt sambærilegur vanda Evrópuríkjanna. Það er eitt sem er umhugsunarvert í því máli, þegar bankahrunið varð hér var ríkissjóður Íslands mjög vel í stakk búinn til að takast á við þau áföll, ólíkt ríkissjóðum flestra Evrópuríkja. Þótt hrunið hafi orðið meira en annars staðar voru líka aðstæður ríkissjóðs betri til að bregðast við. Það er umhugsunarefni að sá fjármálaráðherra sem lagði einna helst grunn að því að þessi staða myndaðist er núna fyrir landsdómi þar sem hann er yfirheyrður um stöðu sína.

Hitt er líka umhugsunarefni almennt um ríkisfjármál að það er í sjálfu sér ekki mjög gömul hugmynd að ríkisskuldir séu allt að því gulltryggar, þ.e. að þeir fjárfestar sem vilja lána ríkjum peninga geti gengið að því sem vísu að þeir fái greitt til baka það sem lánað var. Það er rétt að rifja upp gamalt máltæki sem segir: Það er hættulegt að lána kónginum. Menn þekkja að það þarf ekki að horfa langt aftur í mannkynssöguna til að átta sig á því að margir hafa farið flatt á því að lána ríkjandi valdhöfum. Það er erfitt að innheimta skuldir sínar gegn sterku ríkisvaldi eða herra sem hefur stóran her.

Það er önnur tveggja ranghugmynda sem hafa því miður valdið því að það hefur orðið allt of mikil skuldsetning í samfélögum og löndum Vesturlanda, annars vegar sú hugmynd að ríkissjóðir geti alltaf staðið við sitt og hins vegar að bankarnir geti orðið svo stórir að það verði alltaf að bjarga þeim, að þeir geti ekki farið á hausinn. Þetta tvennt hefur verið meðal megindrifkrafta þess að allt of mikið hefur verið lánað í hagkerfum okkar Vesturlandabúa.

Þess vegna er þessi vandi sem við stöndum frammi fyrir núna og ég fullyrði, frú forseti, að það mun ekki rætast úr hjá okkur fyrr en við náum hagvextinum miklu meira upp. 1,6% hagvöxtur, eins og Seðlabankinn spáir, er ekki nægur til þess að við sjáum út úr þessu. Svo einfalt er málið. 1,6% hagvöxtur þýðir að atvinnuleysið mun halda áfram að vera það sem það er núna. Skilaboðin sem eru send til þeirra sem eru án vinnu eru að þeir geti ekki reiknað með því að úr rætist á næsta ári. Það er mjög alvarlegt mál.

Frú forseti. Það sem ég vil síðan gera að umtalsefni hér er meðferð fjárlaganna í þinginu. Vandinn er að við erum núna að ræða fjárlög sem eru byggð á ákveðnum forsendum um þróun efnahagsmála sem ég held að sé sameiginlegur skilningur okkar þingmanna að muni ekki standast. Það er í það minnsta skilningur Seðlabankans og ég hef ekki séð rök gegn þeirri hagvaxtarspá sem Seðlabankinn birti síðast. Það er hagvaxtarspá upp á 1,6% í stað 3,1% spár Hagstofunnar.

Ég hef velt fyrir mér hvort ekki sé hægt að breyta því fyrirkomulagi sem við höfum hérna, m.a. gagnvart þessum þáttum sem ég hef þó fullan skilning á að er ákveðnum vandamálum háð. Ég er ekki alveg sannfærður um það sem hæstv. fjármálaráðherra sagði, að fjármálaráðuneytið gæti ekki við gerð fjárlaga valið úr einstökum þáttum hagspáa. Í sjálfu sér getum við alveg rætt hvort það sé eðlilegt að fjármálaráðuneytið geri slíkt, leggi mat á það hvað það telur raunhæft. Þetta eru engin eðlisvísindi í sjálfu sér. Þetta er alltaf háð mati. Ef fjármálaráðuneytið telur að hagspár sem hafa verið birtar séu ekki réttar er hægt að rökstyðja að fjármálaráðuneytið hafi aðra skoðun og leggi hana sem grundvöll undir þjóðhagsspá. Það er ekkert verri niðurstaða en einmitt sú sem kannski er að myndast hér þar sem lagt er upp með 3,1% hagvöxt en við sjáum framan í það að hagvöxtur verði bara 1,6%. Þetta er annað atriðið.

Hitt er það hvernig við höldum á málum hér í þinginu við 1. umr. Ég hef nefnt það, ætla að gera það hér aftur og hef lagt drög að því að flytja frumvarp í þinginu um breytingar á því hvernig við högum málatilbúnaði við að minnsta kosti 1. umr. Ég tel rétt, frú forseti, að í þingið komi fagráðherrar og geri í ræðu grein fyrir og sitji síðan fyrir svörum um sinn málaflokk, hvernig fjárlagafrumvarpið hefur áhrif á málaflokkinn og svari fyrirspurnum hv. þingmanna þar að lútandi. Ég held að það mundi styrkja fjárlagagerðina alla að fagráðherrarnir stæðu frammi fyrir þessu. Kæmi síðan í ljós að einhverjar forsendur breyttust varðandi einstaka málaflokka þyrftu viðkomandi ráðherrar að koma til fjárlaganefndar þingsins á milli umræðna og gera þar grein fyrir hvers vegna þyrfti að auka eða draga úr fjárveitingum til þeirra ráðuneyta og hvers vegna slíkar breytingar hefðu orðið á örfáum vikum. Við þekkjum það öll sem höfum komið nálægt þessu að á milli umræðna verða oft gríðarlegar breytingar á fjárlagafrumvarpinu sem gerir 1. umr. ekki eins markvissa og hún ætti að vera.

Ég segi enn og aftur að þetta er efni frumvarps sem ég hef lagt drög að.

Hvað varðar efnahagsstefnuna sem birtist í þessu frumvarpi kallaði ég eftir því í minni fyrri ræðu að það væri nánar rætt og útfært samspil ríkisfjármálanna annars vegar og peningamálastefna Seðlabankans hins vegar.

Stóra meinið, stóra vandamálið og stóra áskorunin í efnahagsmálum okkar snýr akkúrat að því hvernig við látum fjármál ríkisins og peningamálastefnu Seðlabankans vinna saman. Það er lykilatriði. Ég hefði viljað sjá nánari og meiri umfjöllun um þann þátt málsins í þeim gögnum sem hafa komið frá fjármálaráðuneytinu. Ég held að þetta sé nokkuð sem mætti hafa til umhugsunar fyrir hæstv. fjármálaráðherra við framlagningu næsta frumvarps, það mætti vera nánari og dýpri umfjöllun um þennan þátt málsins.

Ef staðan er sú að við séum að horfa hér á 1,6% hagvöxt á næsta ári þurfum við að grípa, allt að því mundi ég segja, til neyðaraðgerða. Ef sá litli hagvöxtur sem fram undan er er drifinn áfram af einkaneyslu sem því miður, og ég held að þar höfum við þingmenn verið sammála, engin innstæða er fyrir verða menn að horfa til þess að á undanförnum árum hafa menn spáð meiri hagvexti en raunverulega hefur orðið. Þegar menn skoða aftur í tímann sjá þeir að menn hafa verið bjartsýnni þegar þeir hafa horft til tveggja til þriggja ára, svo þegar raunveruleikinn hefur komið fram hafa menn þurft að horfast í augu við það að spár hafa ekki gengið eftir. Nú er spáð 1,6% á næsta ári og á árinu þar á eftir rúmlega 3% hagvexti og áfram þar fram eftir götunum. Ég leyfi mér, frú forseti, að efast um að þetta gangi fram að óbreyttri stjórnarstefnu.

Gleymum því ekki að lífeyrissjóðirnir í landinu eru samkvæmt lögum undir þeirri kröfu að skila 3,5% ávöxtun. Það er ekki hægt að gera það í landi þar sem hagvöxturinn er bara 1,6%. Það gengur ekki upp, það er innbyrðis ósamræmi í þessu. Þegar því er haldið fram að við Íslendingar getum ekki átt von á því að vera með meira en á að giska 2% hagvöxt í besta falli er verið að játast undir það á næstu árum, ekki bara eitt eða tvö ár heldur um töluverða tíð, á meðan Íslendingum er að fjölga, fari að minnsta kosti 1–1,5% af hagvextinum í það eitt raunverulega að búa til störf fyrir þá sem eru að koma nýir inn á vinnumarkaðinn. Við verðum að ná hagvexti upp fyrir 3% og við verðum að gera það miklu hraðar en núverandi ríkisstjórn er að tala um.

Í kjarasamningum sem gerðir voru, sem ég var ósáttur við og tel að hafi verið óvarlegir, var gert ráð fyrir því að hagvöxtur yrði í kringum 4%. Til að svo mætti verða voru lagðar fram áætlanir um það sem ríkisstjórnin skrifaði undir að hún mundi framfylgja. Síðan hefur það því miður ekki gengið eins vel og menn ætluðu. Það verður að segjast eins og er að það veldur auðvitað áhyggjum, hlýtur að valda miklum áhyggjum fyrir þingmenn að fylgjast með orðaskaki á milli hæstvirtra ráðherra annars vegar og forustumanna í atvinnulífinu hins vegar. Það er áhyggjuefni.

Síðan vil ég segja að lokum að fram undan er mjög erfiður niðurskurður. Ég mun styðja þessa ríkisstjórn í því að skera niður. Ég er nokkuð viss um að ég muni vilja ganga lengra á sumum sviðum en núverandi ríkisstjórn. Það liggur alveg fyrir og það verða erfiðar ákvarðanir sem þarf að taka í því. En það verður ekki hægt að standa hér í niðurskurði nema menn geri allt sem hægt er til að koma hagkerfinu af stað og auka tekjur ríkissjóðs. Það er ekki hægt að réttlæta það fyrir fólkinu í landinu að við séum að skera niður í ríkisrekstrinum meðan það eru svo sannarlega tækifæri til að auka hagvöxtinn sem ríkisstjórnin grípur ekki, m.a. vegna innbyrðis sundurþykkju.