140. löggjafarþing — 3. fundur,  4. okt. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[19:07]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Rétt er að hafa það í huga þegar verið er að bera saman hagvaxtarspár fyrir Ísland annars vegar og hagvaxtarspár fyrir Evrópuríkin hins vegar að þá er eitt sem skiptir máli og það er hvernig aldurssamsetning íslensku þjóðarinnar er. Það er alveg grundvallaratriði og hefur mjög mikið að segja. Okkur er enn þá að fjölga, vinnandi fólki er að fjölga á meðan hið öfuga er að gerast hjá Evrópuþjóðunum sem gerir það að verkum að það er miklu auðveldara að ná upp hagvexti hér svo lengi sem, frú forseti, fjárfestingin á sér stað. Ef fjárfestingin kemur verður til fólk til að grípa tækifærin og þar með eykst vöxtur þjóðarframleiðslu, hagvöxturinn kemur fram. Það er lykilatriði. Síðan erum við bara svo heppin þjóð að við höfum aðgang að auðlindum sem eru endurnýjanlegar, flestar hverjar, í það minnsta nýtast okkur til langs tíma, og eru einmitt á þeim sviðum efnahagsstarfseminnar sem skiptir máli, þ.e. orka, hrein orka og matvælaframleiðsla. Og auðvitað eigum við að geta náð góðum árangri. Það er alveg hægt.