140. löggjafarþing — 3. fundur,  4. okt. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[19:12]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil hrósa hv. þingmanni bæði fyrir góða og málefnalega ræðu og líka fyrir að hrista með einkar frísklegum hætti upp í þingsalnum sem mér fannst vera að koðna niður hér skömmu á undan. Ég var sammála allt of mörgu í ræðu hv. þingmanns. Það er gott að vita að við stöndum ekki ein í slagnum í ríkisstjórninni og þó að hv. þingmaður kunni að hafa ýmislegt á móti fjárlagafrumvarpinu gaf hann eina mjög mikilvæga yfirlýsingu. Hv. þm. Illugi Gunnarsson sagði að hann mundi ekki styðja ýmsar skattahækkunartillögur í frumvarpinu en hins vegar sagði hann algjörlega skýrt að hann mundi styðja niðurskurðinn.

Það liggur alveg ljóst fyrir að miðað við ræðurnar hér í dag, t.d. þá ágætu ræðu sem flutt var af þeim sem hér talaði síðast, hv. þm. Höskuldi Þórhallssyni, að þá eru mjög umdeildar niðurskurðartillögur sem m.a. varða landsbyggðina óhjákvæmilegar. Við erum í erfiðum mótvindi og við þurfum að taka fast á til þess að komast í gegnum hann.

Hv. þingmaður hefur lýst því yfir að hann muni styðja þær tillögur sem ríkisstjórnin hefur lagt fram til niðurskurðar og það ber að þakka. Ég er svo algjörlega sammála hv. þingmanni um það að við þyrftum eins og kostur er að nýta þær auðlindir sem við höfum yfir að ráða og ekki síður þær sem eru í orkugeiranum heldur en aðrar.

Þá rifja ég það upp fyrir hv. þingmanni að hér lágu á borðinu tillögur og öll leyfi reiðubúin til þess að ráðast í Búðarhálsvirkjun. Það tók langan tíma. Hverjum var það að kenna? Var það ríkisstjórninni að kenna? Það var efnahagsástandinu, það var óstöðugleikanum og það var gjaldmiðlinum að kenna. Það var ástæðan fyrir því hversu seint gekk að ná í alþjóðlegt lánsfjármagn til að geta ráðist í verkið. Hefur hv. þingmanni komið til hugar að það kynni að vera skýringin á því hve seint gengur að afla fjár t.d. til að ráðast í ýmis verkefni sem bíða a.m.k. á teikniborðinu t.d. rétt fyrir ofan Reykjavík? Gæti verið að það væri eitthvað (Forseti hringir.) annað en bara vond ríkisstjórn sem kemur í veg fyrir það?