140. löggjafarþing — 3. fundur,  4. okt. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[19:18]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Svo við höldum okkur við umræðuna um orkukostina. Ég gleðst mjög yfir því að hæstv. utanríkisráðherra … (Utanrrh.: Af hverju viltu ekki að tala um skattana hjá Sjálfstæðisflokknum?) (Forseti hringir.) Svo skal ég taka þá, frú forseti, ég ætla að byrja á því að ræða orkukostina. Ég gleðst mjög yfir þessari yfirlýsingu utanríkisráðherra. Ég gleðst mjög yfir því að hann skuli hafa lýst því hér yfir að hann muni beita sér fyrir því að við getum ráðist sem fyrst í þá orkukosti góðu sem eru í neðri hluta Þjórsár og með því (Gripið fram í.) auðvitað að taka þátt í því með okkur og helst að flýta því hvenær við afgreiðum rammaáætlun.

Ég minni á að varaformaður Sjálfstæðisflokksins hefur flutt þingsályktunartillögu um að ráðast strax í þá kosti sem eru til staðar í neðri hluta Þjórsár, enda hefur mikil undirbúningsvinna verið unnin þar og margir mætir stjórnmálamenn bæði á hægri og vinstri kanti hafa lýst því yfir að þarna sé um að ræða mjög góða kosti. Það er þekkt.

Hitt, varðandi skattahækkanirnar. Já, það er ástæða til að hafa áhyggjur af hæstv. fjármálaráðherra þegar kemur að sköttum. Það er ástæða til þess að við höfum áhyggjur af því að það verði haldið áfram að fara leið skattahækkana. Nú liggur fyrir að núverandi fjárlagafrumvarp er byggt á 3,1% hagvexti. Ef síðan kemur í ljós að sú hagvaxtarspá verður eitthvað meira í líkingu við hagvaxtarspána sem Seðlabankinn hefur sett fram, upp á 1,6%, er komið nýtt gat og þá (Forseti hringir.) verður spurningin: Hvernig verður það brúað?