140. löggjafarþing — 3. fundur,  4. okt. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[19:32]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Betra skipulag að þessu leyti væri til bóta. Til dæmis þegar ég setti mig á mælendaskrá snemma í dag hafði ég ekki hugmynd um hvaða hæstv. ráðherrar gætu verið til svara eða yfir höfuð hvenær ég kæmist að í umræðunni þannig að skýrara skipulag fyrir fram um nærveru ráðherra á tilteknum tímum eða á tilteknum stað í umræðunni gæti verið þingmönnum til aðstoðar að þessu leyti.

Nú vill svo til að þegar ég flutti ræðu mína áðan hafði ég ekki beina spurningu til hæstv. utanríkisráðherra. Það voru hins vegar ýmsir aðrir hæstv. ráðherrar sem ég hefði gjarnan viljað spyrja út úr en það verða þá síðar tækifæri til þess. Það sem við hv. þm. Illugi Gunnarsson bentum einfaldlega á var að það væri ávinningur að því að hafa formið með öðrum hætti þannig að það væri auðveldara að eiga skoðanaskipti við fagráðherra að þessu leyti.

Ég fer hins vegar ekkert ofan af því að þrátt fyrir góða viðveru hæstv. utanríkisráðherra hafa margir hæstv. ráðherrar ekki séð sér fært að vera við umræðuna í dag og það er miður vegna þess að ég minnist þess að hafa átt á undanförnum sennilega tveimur þingum samtal við fagráðherra við upphaf fjárlagaumræðu um málaflokka þeirra.

Ég hef ekki ástæðu til að bregðast að öðru leyti við ræðu hæstv. ráðherra. Hann sagði í ræðu sinni að hann hefði eiginlega verið sammála flestu sem ég sagði. Ég velti þá fyrir mér hvort hæstv. utanríkisráðherra sé fullkomlega áhrifalaus innan ríkisstjórnarinnar vegna þess að fjárlagafrumvarpið var einmitt miðpunktur gagnrýni minnar í ræðunni sem ég flutti áðan.