140. löggjafarþing — 3. fundur,  4. okt. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[19:36]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Varðandi síðustu orð hæstv. utanríkisráðherra þá verð ég eiginlega að lýsa þeirri skoðun að aðgerðir ríkisstjórnarinnar í skattamálum á undanförnum árum hafa sennilega orðið til þess að seinka viðsnúningnum en ekki til að flýta honum. Það að hækka skatta eins og gert hefur verið, af því að nú er talað um að það séu litlar nýjar skattahækkanir í frumvarpinu sem hér liggur fyrir í samanburði við undanfarin ár þá er þar auðvitað um að ræða viðbót við skattahækkanir bæði á árinu 2010 og 2009. Það er verið að bæta ofan á skattana, bæta ofan á hærri gjöldum en verið hefur.

Ég er eindregið þeirrar skoðunar að það hvaða stefna var tekin í skattamálum með hækkun skatta við þessar aðstæður hafi orðið til þess að seinka viðsnúningnum, seinka efnahagsbatanum, seinka því að íslenskt atvinnulíf næði þeirri viðspyrnu sem nauðsynleg var eftir áfallið sem hér dundi yfir haustið 2008. Ég held að ef við lítum til landanna í kringum okkur hafi menn afar víða, ekki alls staðar en afar víða, farið þá leið til þess að reyna að örva atvinnulífið að draga úr skattheimtu. Hér var af einhverjum ástæðum farin allt önnur leið, öfug leið við það sem ríkisstjórnir víða um lönd, víða í nágrannalöndunum, fóru og ég er nokkurn veginn sannfærður um það, þó að það verði kannski seint sannað með vísindalegum hætti, að það hefur orðið til þess að seinka þeim efnahagsbata sem við höfum auðvitað öll vonast til að gæti orðið.