140. löggjafarþing — 3. fundur,  4. okt. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[20:04]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. fjármálaráðherra fyrir ágæta yfirferð yfir umræðuna í dag. Hann gat um þetta skuldabréf sem er mjög jákvætt en sýnir vel hvaða efni búa í íslensku þjóðfélagi, burt séð frá ríkisstjórn, stefnu eða slíkt. Það sem ég held að sé mjög skaðlegt eru hinar gífurlegu, og margar hverjar óþarfar að mínu mati, breytingar á skattkerfinu sem hafa skapað mikið óöryggi, og hin tilviljunarkenndu vinnubrögð skattstjóra, eins og til dæmis varðandi fjármagnstekjuskatt aftur í tímann, þegar menn eru að borga 18% skatt í 10–15 ár þegar skatturinn var ekki nema 10%. Það eru ýmis smáatriði sem geta hrellt menn mjög mikið.

Þegar ég nefndi Kárahnjúkavirkjun hf. var ég ekki að tala um réttindin til virkjana, ég var ekki að tala um það. Ég var að tala um að menn seldu þær virkjanir sem þegar eru komnar í gang. Auðvitað á Landsvirkjun heilmikið af rannsóknarverkefnum og allt slíkt. Ég mundi aldrei selja það, ekki fyrr en búið væri að virkja eða þá komið að virkjun. En ég held að menn þurfi að skoða þetta til að ná í það mikla eigið fé sem er í Landsvirkjun. Og menn eiga ekkert að vera hræddir við að selja Landsvirkjun af því að þeir geta selt hana aftur eftir 40 ár. Það er bara til 40 ára sem þetta er gert. Þessi landlægi ótti við að selja mjólkurkúna eins og sagt er, það er kannski alveg eins gott að ná í alla mjólkina strax fram í tímann og geta notað hana til að koma atvinnulífinu í gang.

Svo væri gaman að vita, og ég vil spyrja hæstv. fjármálaráðherra að því, hvað kostar að sækja um ESB? Nú er sú umsókn á fullu og sagt er að þetta séu milljarðar. Hvað er gert ráð fyrir í fjárlögum að umsókn um ESB kosti mikið?