140. löggjafarþing — 3. fundur,  4. okt. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[20:08]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Maður hlýtur að setja dálítið spurningarmerki við mat AGS á sínum eigin störfum. Þeir hljóta að segja að staðan sé ansi góð þó að allt sé í frosti. Í mínum huga er mjög margt í frosti og þegar maður talar við fólk úti í bæ þá er allt í frosti, það er ekkert að gerast. Það er það sem maður óttast. Jú, jú, verðbólgan er komin niður, vextir komnir niður og allt komið niður og allt hér í sómanum, þetta lítur vel út en það er bara allt frosið. Það er ekki víst að AGS vilji endilega leggja áherslu á það í málflutningi sínum.

Ekki verður heldur fram hjá því horft að skattkerfið var flækt alveg óskaplega. Það var sett inn í það mjög hátt flækjustig sem að mínu mati var að miklu leyti óþarft. Hægt var að ná sömu áhrifum með miklu einfaldara skattkerfi — nákvæmlega sömu áhrifum, að minnka skattbyrði á lágtekjufólk og annað slíkt. Þetta var að óþörfu og menn gengu allt of langt í því að flækja skattkerfið. Það kostar svo mikið að gera það.

Varðandi krónutöluskattana, sem við nefndum áður í ræðunni, þá er það rétt að menn þurfa að vera mjög vakandi yfir því að hækka þá jafnt og þétt þannig að þeir haldi í við verðlagið. Annars er ríkið í raun með kerfisbundnum hætti að lækka viðkomandi skatta. Það gerðist því miður í andvaraleysi þegar Sjálfstæðisflokkurinn var í ríkisstjórn — einn í 18 ár, það var víst aldrei neinn með honum — að þá voru menn dálítið sofandi á verðinum að hækka krónutöluskatta. Gerðar voru nokkrar atlögur að því, man ég, en það er rétt að huga þarf vel að því að krónutöluskattarnir haldi verðgildi sínu.