140. löggjafarþing — 4. fundur,  5. okt. 2011.

orkusala og atvinnusköpun.

[15:17]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég er komin hingað til að auglýsa eftir atvinnumálastefnu ríkisstjórnarinnar. Komið hefur í ljós að þrátt fyrir næga orku þá fjölgar orkan ekki störfum í landinu. Ég hef áhyggjur af rekstri Orkuveitu Reykjavíkur, fyrirtæki borgarbúa. Þeir stóðu í lappirnar á haustdögum 2008 þegar allt hrundi hér og héldu áfram með virkjanaáform sín og sú afurð leit dagsins ljós nú fyrir nokkrum dögum þegar Sleggjan, ný virkjun Orkuveitunnar, tók til starfa. Skaffar sú virkjun 90 megavött og fyrir voru seld 50 megavött til álvers í Helguvík.

Á haustdögum 2009 var undirritaður stöðugleikasáttmáli af ríkisstjórninni ásamt aðilum vinnumarkaðarins og fulltrúum Helguvíkur. Nú er komið haust og árið er 2011 og ekkert hefur gerst. Því má segja að hið nýja orkuver Orkuveitu Reykjavíkur, Sleggjan, sé táknrænn minnisvarði um ósamstöðu ríkisstjórnarinnar þar sem 90 megavött eru inni á kerfinu, ónýtt og án atvinnusköpunar.

Í ljósi þessa vaknar sú spurning, vegna þess að HS Orka hefur nú selt til Verne Holdings gagnaversins þau 35 megavött sem áttu að fara til Helguvíkur, voru að vísu búin að lofa bæði álverinu og kísilveri sömu orku, hvernig á þá að opna Helguvík. Hvernig á að standa að þessum málum? Nú er orkan tilbúin frá Orkuveitu Reykjavíkur en það er búið að selja orkuna frá HS Orku til annarra aðila. Getur hæstv. forsætisráðherra staðfest að þessi gjörningur geti þýtt það að ekki verði byggt eða haldið áfram með álver í Helguvík?