140. löggjafarþing — 4. fundur,  5. okt. 2011.

orkusala og atvinnusköpun.

[15:23]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vona sannarlega að Orkuveitan geti nýtt þá orku sem þeir hafa þegar keypt, (Gripið fram í.) sem Orkuveitan hefur þegar fengið (VigH: Framleitt.) og framleitt. Auðvitað er verið að framleiða hana svo hægt sé að nýta hana og hugmyndir voru uppi um það nýta hana á Reykjanessvæðinu. Ég vona sannarlega að það verði gert. (Gripið fram í: Vona.) Já, ég vona það vegna þess að það er ekki í höndum stjórnvalda og ég vona að hv. þingmaður skilji að þessi mál eru ekki í höndum stjórnvalda, t.d. varðandi Helguvíkina. Aðrir aðilar ráða þar ferðinni og það er spurning hver niðurstaðan verður í þeim gerðardómi sem nú er starfandi.

Ég vil bara ítreka aftur að ég vona að Helguvíkurverkefnið verði að veruleika. Við þurfum á því að halda og ég vona að orkan nýtist þar sem hún auðvitað best kemur að notum.