140. löggjafarþing — 4. fundur,  5. okt. 2011.

IPA-styrkir Evrópusambandsins.

[15:27]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir svörin og mun taka hann á orðinu varðandi skriflega fyrirspurn um nákvæmari útlistun. Ég vildi samt ítreka við hæstv. utanríkisráðherra hvort hann geti gefið okkur upp hvað vænta megi að mikið fjármagn renni frá Evrópusambandinu til íslenskra stjórnvalda á þessu ári í gegnum þessa styrki, svona nokkurn veginn, ekki að ég sé að tala um krónur og aura heldur nokkurn veginn. Eins hvað fyrirhugað er að það verði á næsta ári, því það hlýtur að hafa verið skoðað í tengslum við fjárlagafrumvarpið hve miklir styrkir eru væntanlegir á næsta ári vegna þessara verkefna.