140. löggjafarþing — 4. fundur,  5. okt. 2011.

ákvörðun um stuðning við aðgerðir NATO í Líbíu.

[15:29]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Frú forseti. 21. september birtist lítil frétt á heimasíðu Atlantshafsbandalagsins þess efnis að búið væri að taka ákvörðun í Norður-Atlantshafsráðinu um að framlengja hernaðaraðgerðir Atlantshafsbandalagsins í Líbíu. Við þekkjum forsögu þess máls. Fyrst samþykkti fulltrúi Íslands af hálfu íslenskra stjórnvalda í mars sl. að Atlantshafsbandalagið yfirtæki aðgerðirnar sem byggðar voru á ályktun öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna. Hæstv. fjármálaráðherra, Steingrímur J. Sigfússon, sagði þá aðspurður á Alþingi daginn eftir að hann væri ekki samþykkur þessu og hann hefði ekki verið spurður.

Síðan þekkjum við það líka að þremur mánuðum seinna, í júní, var umboð bandalagsins framlengt til að halda þeim aðgerðum áfram. Þá kom hæstv. utanríkisráðherra á fund utanríkismálanefndar þar sem fulltrúar Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs bókuðu mótmæli og lýstu sig andvíga þessu en fulltrúi Íslands í Norður-Atlantshafsráðinu greiddi engu að síður atkvæði um þetta.

Nú vil ég spyrja hæstv. utanríkisráðherra: Var hæstv. fjármálaráðherra og hv. formaður Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, Steingrímur J. Sigfússon, spurður í þetta sinn? Og voru bókuð mótmæli við þessari ákvörðun?