140. löggjafarþing — 4. fundur,  5. okt. 2011.

staðgöngumæðrun.

4. mál
[15:52]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir skýra og rökfasta ræðu. Síðasti hluti ræðu hennar, sem varðaði jafnræði einstaklinga, fannst mér einkar fagur áheyrnar. Þar voru skýrð ákveðin álitaefni, að minnsta kosti fyrir mér, með hætti sem mér hugnaðist vel. Þetta þingmál varðar grundvallarafstöðu. Mín er þessi: Ég tel að ef hægt er að leysa vandamál eins og þau sem lúta að barnleysi með leið þar sem sátt er við alla aðila máls og leiðin skaðar engan þeirra eigi að heimila hana. Ég styð þetta þingmál mjög dyggilega, hef kynnt mér það vel. Helsta mótbáran gagnvart þessari leið felst í því, að mér virðist, að með þessu sé verið að opna á möguleika til að misnota þá konu sem staðgönguna tekst á herðar. Ég tel að með þeim farvegi sem er markaður í greinargerðinni, og enn frekar með breytingum sem hafa orðið á málinu frá upphaflegri gerð þess, sé í gadda slegið að svo sé ekki. Ég tel að girt sé fyrir það. Og þá finnst mér að helsta siðferðilega álitaefninu sem þetta mál snertir sé úr vegi rutt. Ég styð það því mjög eindregið að þetta mál verði afgreitt.

Ég er líka þeirrar skoðunar eins og hv. þingmaður að átt hafi sér stað djúp umræða um þetta mál. Hér fyrr á árum lágu ýmiss konar réttindamál eins og til dæmis stjúpættleiðingar, eins og staðfest samvist, föst í þinginu í nokkur ár vegna þess að menn sögðu að það vantaði umræðuna. Í dag er þetta partur af hinum sjálfsagða þætti samfélagsins og svo held ég að verði líka um þetta.