140. löggjafarþing — 4. fundur,  5. okt. 2011.

staðgöngumæðrun.

4. mál
[15:56]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Sjálfþakkað er þingmanninum sem hefur sýnt mikla einurð og þrautseigju í þessu máli. Ég fellst fúslega á að það eru siðferðisleg álitaefni í þessu efni. Eitt þeirra er stærst, það reifaði ég í stuttu andsvari áðan. Mér finnst að tryggilega hafi verið sýnt fram á að rökin sem hafa verið færð fram gegn málinu á þeim grunni eiga ekki við, ekki eins og þetta mál liggur fyrir. Ég hef einnig átt margar samræður um þetta mál, mest við fólk í mínum eigin flokki sem ekki er allt sömu skoðunar og ég. Menn benda á að ýmsar leiðir séu til að vinna glímuna gegn vanda af þeim toga sem barnleysi er, og það er böl og fyrir marga mikið böl. Ég heyri oft þá röksemd að menn geti þá bara farið sömu leið og ég gerði, sem í mínu lífi fór þá leið að leysa þetta vandamál með ættleiðingum. Það tók langan tíma og mikla erfiðleika á þeim tíma en núna er staðan miklu þrengri. Það er mjög erfitt að fara þá leið í dag. Þannig er bara staðan í því umhverfi.

Ég er líka þeirrar skoðunar að menn eigi að hafa frelsi til að velja. Ef einhverjir vilja ekki fara sömu leið og ég af einhverjum ástæðum og þessi leið er tæknilega fær og hægt að sýna fram á það með rökum að hinum siðferðislegu spurningum sem voru reistar er nánast að fullu svarað, eða eftir liggja ákaflega veik rök á þeim grundvelli, finnst mér það ekkert áhorfsmál að það eru mannréttindi að leyfa að fara þessa leið.

Ég hvet þingið til að skoða þetta ákaflega vel með opnum huga. Ég leggst síður en svo gegn því að þetta mál fái aðra og dýpri skoðun í viðeigandi nefnd. En ég er sammála hv. þingmanni um það að þetta mál er rætt mjög mikið í samfélaginu. Ég held að það þarfnist ekkert miklu meiri umræðu en þegar hefur farið fram á almannavettvangi.