140. löggjafarþing — 4. fundur,  5. okt. 2011.

staðgöngumæðrun.

4. mál
[15:58]
Horfa

Flm. (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er rétt sem hæstv. utanríkisráðherra nefnir varðandi ættleiðingarnar, það er ein af röksemdunum sem færðar eru fram í þessari umræðu. Af hverju þarf fólk að eignast sitt eigið barn, er ekki hægt að ættleiða? Í fyrsta lagi er það þannig að flestir þessara einstaklinga sem eiga hér í hlut hafa verið á ættleiðingarlistum hingað og þangað. Það er ekkert hlaupið að því. Við þurfum einmitt líka, og það er nokkuð sem við þurfum að huga að hér á löggjafarsamkundunni, að athuga þær reglur, hvort við getum gert eitthvað til að aðstoða þetta fólk. Ákvarðanir sem hafa verið teknar hér hafa nefnilega komið niður á ættleiðingarmöguleikunum, til dæmis erum við að heimila gagnkynhneigðum, samkynhneigðum og einhleypum og öllum sem það vilja að ættleiða en, af því að ég veit að Kólumbía er sterk í huga hæstv. utanríkisráðherra, eru mörg kaþólsk lönd rómönsku Ameríku hætt að leyfa ættleiðingar til Íslands einmitt vegna þess að þetta brýtur í bága við gildismat þeirra. Þá þurfum við að athuga hvað við getum gert til þess að aðstoða það fólk við að komast til annarra landa eða greiða úr þessu með öðrum hætti.

Við vorum að ræða viðhorfin og ég nefndi hér áðan hið bindandi samkomulag og hvernig réttur staðgöngumóðurinnar er enn betur tryggður. Kvenfélagasambandið og femínistafélagið og þessi samtök lögðust gegn tillögunni á síðasta þingi einmitt vegna þeirra sjónarmiða en ég vona að við séum búin að girða fyrir það. Þegar verið var að breyta lögum um tæknifrjóvgun vegna gjafaeggs og gjafasæðis á sínum tíma voru til dæmis viðhorf (Forseti hringir.) bæði kvenfélagasambandsins og kvenréttindafélagsins þannig, með leyfi forseta:

„Kvenfélagasamband Íslands styður frumvarpið eins og það er lagt fram enda er um að ræða almennt framfaramál sem bætir réttindi „allra kvenna“ til að eignast börn.“

Vonandi erum við búin að girða fyrir (Forseti hringir.) álitamálin og getum tekið (Forseti hringir.) allar konur inn í þetta.