140. löggjafarþing — 4. fundur,  5. okt. 2011.

staðgöngumæðrun.

4. mál
[16:03]
Horfa

Flm. (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef ekki sérstakar áhyggjur af því máli sem hv. þingmaður vekur máls á varðandi tæknifrjóvgunina, að það hafi áhrif á það hvort þetta mál nái fram að ganga eða ekki. Ég hef hins vegar miklar áhyggjur af því að verið sé að skerða fjárframlög til tæknifrjóvgunarmála þannig að það verði einmitt, eins og þingmaðurinn segir, þeir efnameiri sem geti nýtt sér þau úrræði sem til eru. Ég held að við getum alveg tekið þetta mál út fyrir sviga varðandi það.

Auðvitað mun þetta líka kosta peninga. Auðvitað mun þetta líka verða þannig vaxið að ríkið tekur þátt í greiðslu fyrir þær meðferðir. Núna eru það eingöngu þeir efnameiri og þeir sem eru tilbúnir að leggja á sig mikið erfiði sem geta nýtt sér þetta úrræði. Ég þekki marga einstaklinga, mörg pör, sem oft og mörgum sinnum hafa farið til útlanda til að nota þetta úrræði, staðgöngumæðrun, þar sem það er leyft eða þar sem það er ekki bannað. Ég verð að segja eins og er að eftir að hafa heyrt allar þær sögur, eftir að hafa heyrt öll þau vandræði sem fólk lendir í — þetta fólk er líka með lánin sín, þetta fólk er líka að glíma við allt það sem við höfum þurft að glíma við sem þjóð eftir bankahrun. Ofan á það bætast við milljóna króna reikningar fyrir ferðir til Grikklands, til Bandaríkjanna, til Indlands, til þeirra landa þar sem hægt er að gera þetta. Ef það er eitthvað sem veldur misrétti og skiptir fólki í efnameira fólk og efnaminna þá er það einmitt það að hafa þetta bannað hér.