140. löggjafarþing — 4. fundur,  5. okt. 2011.

staðgöngumæðrun.

4. mál
[16:10]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf):

Frú forseti. Þessi umræða og viðbrögðin sem urðu við þessu máli þegar það kom fyrst til tals á síðari hluta síðasta þings er viðkvæm og vandmeðfarin. Hún hreyfir við innsta kjarna grunngilda okkar og hún hreyfir við innsta kjarna rótgróins gildismats. Það er þess vegna sem hún er svona erfið, þessi umræða. Hún er af sama toga og umræðan um fóstureyðingar á sínum tíma. Hún er af sama toga og umræðan um glasafrjóvgun og tæknifrjóvganir. Hún er af sama toga og umræðan um rétt samkynhneigðra til að ættleiða börn. Hún er þung vegna þess að við þurfum að brjóta upp okkar eigin rótgrónu innrætingu og okkar rótgróna uppeldi og það sem við eigum að venjast og þá í nafni annarra gilda, eins og mannkærleika, jafnréttis og mannréttinda.

Frá upphafi Íslandsbyggðar má segja að staðgöngumæðrun hafi viðgengist hér. Konur hafa alið börn og fært þau öðrum konum til uppeldis og umráða. Mér er enn minnisstætt mjög hjartnæmt viðtal við 20 barna móður sem var sýnt í sjónvarpinu fyrir ekki mjög mörgum árum. Hún nefndi það sérstaklega, gamla konan, að systir hennar hefði aldrei getað eignast börn og sagði: En það var nú allt í lagi, ég gaf henni tvö, ég átti nóg.

Það er svo undarlegt að það viðhorf að kona geti fætt og gefið barn skuli hafa verið svo mikið tabú í samfélagi okkar á seinni tímum. Við erum samfélag sem lítur á það sem norm að eyða fóstri og ég geri nú ekki athugasemdir við að uppi geti verið aðstæður sem réttlæti það. En á sama tíma er einkennilegt að það skuli vera tabú að ganga með barn fyrir aðra.

Ég lít svo á að með því að samþykkja staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni, sem er grunnforsendan fyrir þessari þingsályktunartillögu, séum við einmitt að hafna hagnaðarsjónarmiðum og þeirri hættu að veikar félagslegar aðstæður manneskju séu misnotaðar. Og þegar menn taka sér í munn orðið „vændi“ í því samhengi, og tala um að það að nota líkama annarrar manneskju sé vændi, þá á það vissulega við þegar það er gert í hagnaðarskyni. En þegar systir, mágkona, móðir eða ástvinur, sambýliskona, gengur með barn með sama hugarfari og þessi 20 barna móðir sem ég vitnaði til áðan, af því að hún vill gefa barnið þeim sem ekki á þess kost af líffræðilegum ástæðum, þá geri ég fullan greinarmun á því og hinu að nýta sér bágbornar aðstæður fólks. Það er auðvitað mjög mikilvægt, og algert grundvallaratriði í þessari umræðu, að ekki sé hætta á því að aðstæður fólks verði misnotaðar til að knýja fram einhverja niðurstöðu í þágu þeirra sem vilja eitthvað sem náttúran vinnur gegn.

Með því að leggja þingsályktunartillöguna fram — ég er meðflutningsmaður, en átti því miður ekki kost á að koma að fyrri umr. hennar á síðari hluta síðasta þings og tek því til máls núna — erum við alls ekki að tala um misnotkun, það er mjög mikilvægt að um er að ræða staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni.

Það er líka mjög mikilvægt, sem er grunntónn í þingsályktunartillögunni, og ég vil vekja athygli á, að við setjum lagaramma um þá óbeinu staðgöngumæðrun sem segja má að sé við lýði nú þegar, að það séu hagur og réttindi barnsins sem séu sett þar í forgang, sem er og gert. Eins og sjá má þegar tillagan er lesin er í fyrsta lagi lögð áhersla á að tryggja hag og réttindi barnsins, í öðru lagi að tryggja rétt, sjálfræði og velferð staðgöngumóðurinnar og hennar fjölskyldu og í þriðja lagi að tryggja farsæla aðkomu hinna verðandi foreldra. Eins og segir hér, með leyfi forseta:

„Skýrt verði kveðið á um traustan lagaramma, ströng skilyrði og skýrar verklagsreglur við framkvæmd og eftirlit staðgöngumæðrunar sem og hvernig best verði stuðlað að upplýstri umræðu um staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni í samfélaginu.“

Þetta er mjög mikilvægt atriði sem aldrei verður of oft áréttað.

Það kemur fram í umfjöllun hv. heilbrigðisnefndar um málið síðastliðið vor að nefndin vilji að lögð verði áhersla á nokkur veigamikil atriði í þeirri vinnu sem boðuð er í þingsályktunartillögunni. Ég tek heils hugar undir þau og vil þá sérstaklega nefna fimm atriði og taka undir þau með heilbrigðisnefnd, þ.e. með hvaða hætti hagur barnsins er best tryggður og hvernig megi setja í forgrunn þroskavænleg og kærleiksrík uppeldisskilyrði þess. Réttur barnsins, meðal annars til að þekkja uppruna sinn, er áleitin spurning og atriði sem taka þarf afstöðu til og einnig það hvernig velferð, sjálfræði og réttindi staðgöngumóðurinnar séu best tryggð. Er hægt að skylda hana þegar fæðing er afstaðin til að afhenda barnið ef henni snýst hugur? Það er mjög erfitt í mínum huga og það mundi ég ekki vilja sjá. En ég mundi líka vilja sjá það þá áskilið í þeirri vinnu að staðgöngumóðirin ætti alltaf kost á því, eftir að hafa gengið með barnið, að halda því ef hún svo kýs. Um þetta kunna að vera skiptar skoðanir en um þetta getum við líka deilt en þetta er nokkuð sem taka þarf afstöðu til og mundi að endingu ráða afstöðu minni til þess hvernig hið endanlega fyrirkomulag ætti að vera.

Það þarf líka að huga að því hvernig á að uppfylla skilyrði til að fá að vera staðgöngumóðir, hvernig best verður komið í veg fyrir staðgöngumæðrun í hagnaðarskyni og hvernig eigi að tryggja það með óyggjandi hætti að um raunverulega velgjörð sé að ræða.

Það eru fjölmörg siðferðisleg álitaefni sem þarf að taka afstöðu til í þessu máli. Þeir sem eru á móti málinu núna eru það af siðferðislegum ástæðum, ég dreg það ekki í efa. En ég vil líka árétta að þeir sem eru með málinu eru það líka á siðferðislegum forsendum. Það er mikilvægt, finnst mér, og kannski mikilvægast, að við virðum sjónarmið og rök í þessari umræðu og vöndum okkur eins vel og okkur er unnt. Ég er sjálf fimm barna móðir, hef átt því láni að fagna að hafa aldrei staðið frammi fyrir neinum hindrunum varðandi það að ganga með og fæða barn, og í þakklætisskyni til forsjónarinnar fyrir það lán vil ég gjarnan styðja þetta mál. En ég vil gjarnan gera það á siðferðislega ábyrgum forsendum og ég treysti þingheimi til að gera það og hef þar af leiðandi góða von um að þetta mál nái farsællega fram að ganga og árétta það sem ég sagði í upphafi: Með því að samþykkja staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni tökum við skýra afstöðu gegn staðgöngumæðrun í hagnaðarskyni.