140. löggjafarþing — 4. fundur,  5. okt. 2011.

staðgöngumæðrun.

4. mál
[16:36]
Horfa

Flm. (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þm. Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur fyrir að taka þátt í þessari umræðu. Þingmaðurinn lagði fram tillögu til frávísunar á síðasta þingi við tillögu sem þá var til umfjöllunar, og ég hafði saknað þess að hafa ekki átt þess kost að eiga við þingmanninn orðastað um þetta þannig að ég fagna því að hún sé hér til að taka þessa umræðu.

Mig langaði að nefna nokkur atriði í ræðu þingmannsins. Hún ræðir um að þetta sé bein ósk þingsins til velferðarráðherra um að skrifa frumvarp sem heimili staðgöngumæðrun. Það er rétt. Það er mikilvægt að Alþingi álykti að heimila staðgöngumæðrun og vilji Alþingis komi fram en jafnframt að vilji Alþingis um að það sé gert af velgjörð og með traustum lagaramma komi skýrt fram.

Varðandi umsagnir og harða gagnrýni umsagnaraðila þá er ég ekki sammála því að eingöngu hafi komið fram hörð gagnrýni. Það kom vissulega fram gagnrýni í umsögnum en ég tel að þeirri gagnrýni hafi annaðhvort verið svarað í nýrri tillögu eða ég er einfaldlega ósammála mörgu í þeirri gagnrýni og hef tekið þá umræðu víða.

Ég vil spyrja hv. þingmann, vegna þess að hún las upp úr áliti meiri hluta félagsmálanefndar sem hún skrifaði undir: Hversu ítarleg var umfjöllun hv. félagsmálanefndar um málið á sínum tíma áður en nefndarálitið var gefið út? Hvað komu margir gestir á fund nefndarinnar? Voru kallaðir (Forseti hringir.) til fulltrúar ólíkra sjónarmiða? Á hvaða upplýsingum byggði (Forseti hringir.) hv. félagsmálanefnd niðurstöðu sína um að þetta væri ekki tímabært?