140. löggjafarþing — 4. fundur,  5. okt. 2011.

staðgöngumæðrun.

4. mál
[16:41]
Horfa

Flm. (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég skal taka það að mér sjálf að athuga hvort einhverjir gestir hafi yfir höfuð komið á fund félagsmálanefndar. Ég er nefnilega ekki viss um að það hafi gerst.

En út af því sem hv. þingmaður nefnir, að hagsmunasamtök fólks sem á við ófrjósemi að stríða hafi ekki lagst gegn þessu, þá vil ég segja eitt. Það fólk hefur kynnt sér þessi mál mun betur en nokkur annar, leyfi ég mér að segja. Það hefur lesið hverja einustu rannsókn um áhrif staðgöngumæðrunar á börnin, á mæðurnar, á foreldrana, á fjölskyldur og alla. Það er nefnilega svo áhugavert þegar maður fer að skoða þessi mál, að það er ekki rétt sem kemur svo oft fram að gera þurfi einhverjar rannsóknir og skoða hvernig þetta er allt saman. Þessar rannsóknir eru til. Nú ætla ég að afhenda hv. þingmanni afrit af lista með samantektum úr fullt af rannsóknum, ég er með meira á borðinu hjá mér.

Ég hef gagnrýnt vinnuhóp þáverandi hæstv. heilbrigðisráðherra Álfheiðar Ingadóttur sem fylgdi þessu máli mjög vel og skilaði áfangaskýrslu, en ég vil gagnrýna skipan hópsins fyrir tvennt. Vinnuhópurinn hefði átt að vera með fjölbreyttari bakgrunn og fjölbreyttari skoðanir. Þess vegna leggjum við það til í tillögunni núna að öll sjónarmið fái að heyrast. Svo vil ég líka gagnrýna að svo virðist sem aðilarnir í starfshópnum hafi ekki kynnt sér niðurstöður þeirra rannsókna sem gerðar hafa verið, vegna þess að í skýrslunni er tekið fram að rannsaka þurfi hitt og þetta þegar fyrir liggja niðurstöður einmitt um öll þau atriði sem verið er að velta vöngum yfir. Ég vil því ég hvetja fólk til að setjast yfir efnið sem er til, skoða rannsóknir sem hafa verið gerðar, langtímarannsóknir um áhrif þessa á alla hlutaðeigandi, til að umræðan verði sem best.