140. löggjafarþing — 4. fundur,  5. okt. 2011.

staðgöngumæðrun.

4. mál
[16:43]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég hvet hv. þingmann til að leggja fram þennan lista og hef einmitt lýst yfir stuðningi mínum við að skipaður verði starfshópur til að fara enn ítarlegar í gegnum þetta og við fáum síðan skýrslu um það til þingsins.

Varðandi umsagnaraðila, svo því sé haldið til haga, þeir sem mæltu eindregið gegn samþykkt fyrri tillögunnar, og nú mun koma í ljós hvernig viðhorf þessara aðila breytast, voru Siðfræðistofnun, Mannréttindaskrifstofa Íslands, umboðsmaður barna, Barnaheill, Rannsóknastofa í kvenna- og kynjafræðum, Jafnréttisstofa, Femínistafélag Íslands, landlæknisembættið, Læknafélag Íslands, Rauði kross Íslands, Andlegt þjóðarráð bahá'ía á Íslandi, Alþýðusamband Íslands, Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga, Kvenréttindafélag Íslands og þjóðmálanefnd þjóðkirkjunnar. Þetta er umtalsverður fjöldi aðila sem við á þessu þingi viljum oft og tíðum taka mark á. Ég er ekki að gera lítið úr umsögnum þeirra sem voru jákvæðir um staðgöngumæðrun. Ég er einfaldlega að benda á að aðilar sem við erum vön að taka mark á í þessu þingi, lögðust eindregið gegn því að við samþykktum fyrri tillögu. Og ég bið um það hér að við tökum þessi skref mjög varfærnislega.