140. löggjafarþing — 4. fundur,  5. okt. 2011.

staðgöngumæðrun.

4. mál
[17:12]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er ljóst að það eru hv. þingmenn og einstaklingar í samfélaginu sem eru fylgjandi staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni á grundvelli hugmynda um jafnrétti og þess vegna tók ég dæmi frá Englandi þar sem þetta hefur verið dýrt. Tekjulægra fólk hefur bent á að þetta væri dýrt og þá koma upp mjög gild jafnréttisrök. Er réttur þeirra tekjuhærri jafnari en þeirra tekjulægri? Ég er einfaldlega að benda á það að við erum að tala um löggjöf sem varðar kjarnann í mannhelgi og grundvallarsiðferðisspurningar og við erum að nota jafnrétti og slík hugtök til að fjalla um þau málefni. Ég held að það sé mjög mikilvægt, og þess vegna vil ég að við förum okkur mjög hægt, að þegar við erum að fjalla um gríðarlega stór álitamál þá lítum við fram í tímann og gerum okkur grein fyrir öllum þeim flóknu álitaefnum og áleitnu spurningum sem munu koma í kjölfarið.

Eins og ég sagði áður get ég stutt hluta tillögunnar sem varða starfshópinn en ég tel ekki að það sé eðlilegt að svo stöddu að óska eftir frumvarpi sem heimili staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni heldur eigum við að óska eftir skýrslu ráðherra, að það sé eðlilegt næsta skref að taka í svo viðamiklu máli.