140. löggjafarþing — 4. fundur,  5. okt. 2011.

staðgöngumæðrun.

4. mál
[17:25]
Horfa

Davíð Stefánsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Stórt er spurt, enda um risastórt álitamál að ræða. Ég ætla ekki að koma hingað í pontu og þykjast hafa öll svör á reiðum höndum um allar rannsóknir sem gerðar hafa verið, og allar hliðar. Ég, eins og flestir þingmenn sem ég hef rætt við, er rétt að byrja að tæpa á þessu máli, enda er það risastórt og varðar, eins og það var orðað áðan, okkar innstu mannhelgi. Ég er mjög fús til að hlusta á mótrök eins og í dag, fús til að skoða rannsóknir sem styðja hina hlið málstaðarins. Hv. þm. Ragnheiður Elín hefur gagnrýnt störf starfshópsins sem var skipaður af heilbrigðisráðherra og þá hlýtur hún að styðja að skipaður verði nýr starfshópur, mögulega á breiðari grundvelli, sem kanni þetta til hlítar. Það er mín ýtrasta ósk í þessu að áður en við segjum Alþingi að heimila staðgöngumæðrun þá skoðum við þetta betur.