140. löggjafarþing — 4. fundur,  5. okt. 2011.

staðgöngumæðrun.

4. mál
[17:26]
Horfa

Flm. (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil ítreka spurningu mína varðandi afstöðu þingmannsins til eggjagjafar. Varðandi það hvort hv. þingmaður hafi öll svör á reiðum höndum þá er ég ekki að fara fram á slíkt. En ég fer fram á það að ef hv. þingmaður segir að það sé ljóst af fjölmörgum rannsóknum að mörkin á milli staðgöngumæðrunar af velgjörð og í hagnaðarskyni séu óljós hafi hann þá alla vega lesið sér til um eina eða tvær rannsóknir sem styðja það. Ég hef rannsóknir af því tagi ekki fyrir framan mig.

Varðandi annað sem kom fram í máli hv. þingmanns og hann vísaði í umsagnir, þær röksemdir að konan og æxlunarfæri hennar séu misnotuð og konan verði hýsill — á fundum um þessi mál hef ég heyrt konunni líkt við blómapott þegar hún gengur með barn fyrir aðra konu. Ég hef þá alltaf spurt: Hvenær verður maður blómapottur? Ég hef gengið með barn og á það sjálf. (Forseti hringir.) Er ég þá minni blómapottur en einhver sem gengur með barn og lætur það af hendi? (Forseti hringir.) Þetta er enn ein spurningin í þessu samhengi.