140. löggjafarþing — 4. fundur,  5. okt. 2011.

staðgöngumæðrun.

4. mál
[17:28]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Mig langar að spyrja hv. þingmann: Þegar hann ræddi um þessi örmjóu mörk á milli staðgöngumæðrunar í velgjörðarskyni og hagnaðarskyni og gaf til kynna að velgjörðin hyrfi yfir í hagnaðinn hægt og bítandi eða fljótt og greitt — hvað á hann við með þessum orðum sínum?

Í öðru lagi verð ég sem kona og móðir sem hef gengið með tvö börn að láta í ljós óánægju mína með að líkama konu sé í þessu tilviki líkt við hýsil í þeirri merkingu sem við þekkjum það orð, ef svo færi að kona gengi með barn fyrir aðra konu. Við verðum að vanda okkur í orðavali þegar við erum að tala í þessu máli.