140. löggjafarþing — 4. fundur,  5. okt. 2011.

staðgöngumæðrun.

4. mál
[17:46]
Horfa

Þór Saari (Hr) (andsvar):

Herra forseti. Ég sé það og les það í þingsályktunartillögunni að hér er verið að tala um þetta í velgjörðarskyni og það er náttúrlega ein af frumforsendum þess að ég muni nokkurn tíma geta samþykkt þetta ef af verður. Mér er vel kunnugt um að það er alls ekki ætlun flutningsmanna að þetta verði gert með nokkrum öðrum hætti. Ég er einfaldlega að velta upp þeim möguleikum sem munu skapast og sem mun verða reynt að nota þegar fram í sækir.

Við vitum að í heilum héruðum á Indlandi vantar annað nýrað í fólk vegna þess að það er búið að selja úr sér nýrað. Það eru viðskiptatækifærin í þessu eins og svo mörgu öðru sem kveikja hryllingsmyndina í höfði mér. Ég vil fá að vita hvernig við getum komið í veg fyrir það, ef við getum það, að slíkt muni nokkurn tíma raungerast. Það eru áhyggjur mínar af þessu máli. Ég mundi að sjálfsögðu fagna því að allir gætu eignast börn.

Einhvern tíma fyrir ekki alls löngu á Íslandi var það talið óhugsandi af siðferðilegum ástæðum að læknar gætu sinnt lækningum í hagnaðarskyni. Sú afstaða hefur kannski ekki mikið breyst en engu að síður eru læknar sem gera þetta. Sporin hræða mjög víða og ég er hræddur við að fara með þetta mál beint inn í frumvarp nema að mun rækilegar athuguðu máli en kemur fram í þessari þingsályktunartillögu eins og fram hefur komið.