140. löggjafarþing — 4. fundur,  5. okt. 2011.

staðgöngumæðrun.

4. mál
[17:56]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar að spyrja hv. þingmann um skoðun hans á breytingu á lögum frá 1996 um tæknifrjóvgun þar sem eingöngu var horft til ófrjósemi og síðan á lögunum sem samþykkt voru 2006 þar sem gengið var mun lengra en 1996 þar sem bæði einhleypum konum og samkynhneigðum konum í sambúð var gert kleift að fara í tæknifrjóvgun. Telur hann ekki að lögin sem voru samþykkt 2006 og gengu þetta lengra sýni í raun t.d. varðandi konur án legs sem ekki geta gengið með börn að þau stangast á við hugsanlega jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar, ef við förum út í það, er ekki misrétti fólgið í lögunum frá 2006 ef miðað er við þá aðila sem hér eru til umræðu og falla undir það sem heitir staðgöngumæðrun? Hver er skoðun hans á því að konur geti fengið sæði og farið í tæknifrjóvgun og gengið þannig með börn og svo á því sem hér er um að ræða? Telur hann að um staðgöngumæðrun sé að ræða í fyrra tilvikinu og hver er afstaða hans til þess og laganna frá 2006?