140. löggjafarþing — 4. fundur,  5. okt. 2011.

staðgöngumæðrun.

4. mál
[18:13]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það er einkenni á blessuðum kapítalismanum að hann markaðsvæðir flest svið mannlífsins og það er okkar stjórnmálamannanna að setja bönd á þá skepnu sem mörg okkar telja að geti verið til góðs, ég tel t.d. að gott sé að nota markaðsbúskap til framleiðslu, en ég er ekki sammála því að hann eigi að ná utan um öll svið mannlífsins. Þetta er nákvæmlega það sem Norðmenn eru að fást við í þessu tilfelli og ég tek þetta mjög alvarlega og við stöndum frammi fyrir mjög alvarlegum spurningum þegar börn eru orðin markaðsvara. Ég vil ítreka að ég segi þetta ekki í samhengi við þessa þingsályktunartillögu, svo enginn misskilji mig.

Þess vegna lít ég á þessar stóru spurningar, þegar við horfum á málið út frá því að vernda börn sem verða til vegna viðskiptasambanda, líka sem alþjóðlega baráttu. Mér finnst þess vegna mjög áhugavert að vita hvernig Norðmenn vinna að þessu, vegna þess að sé fólk fylgjandi staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni til að koma í veg fyrir verslun með börn, finnst mér að við eigum líka að líta í þessar áttir og til alþjóðlegra stofnana, Evrópuráðsins, Sameinuðu þjóðanna og annarra, því fyrir mér er þetta mikil ógn við mannhelgi og siðað samfélag.