140. löggjafarþing — 5. fundur,  6. okt. 2011.

störf þingsins.

[10:33]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Mig langar til að spyrja hv. þm. Helga Hjörvar, formann efnahags- og viðskiptanefndar, um fjárhagsstöðu heimilanna og þá þann endann sem menn tala minnst um, það eru sparifjáreigendur. Sparnaður í landinu er um 1.530 milljarðar, þar af er einn þriðji sparnaður heimilanna, annað er hjá lífeyrissjóðum, bönkum o.s.frv. Af þeim 540 milljörðum sem heimilin eiga í sparnaði þar sem þau hafa frestað neyslu og sýnt ráðdeild og sparsemi, eru 24% verðtryggð, hitt er óverðtryggt, meira en þrír fjórðu eru óverðtryggðir.

Ef maður lítur á vaxtatöflu bankanna sem sýna gífurlega góðan hagnað þessa dagana eru bestu vextirnir sem maður sér þar 2,5% óverðtryggt. Af því er tekinn skattur sem ríkisstjórnin hefur nú hækkað í 20% þannig að 2% sitja eftir í 5% verðbólgu.

Ég vil spyrja hv. þingmann, formann efnahags- og skattanefndar, hvort honum þyki eftirfarandi staða góð: Maður leggur fyrir 100 þús. kr. og á 102 þús. kr. með vöxtum eftir árið en vörurnar sem hann gat keypt fyrir 100 þús. kr. árið áður eru komnar upp í 105 þús. kr. þannig að hann er búinn að tapa 3 þús. kr. Er þetta það sem hv. þingmaður vill sjá og er hann kerfisbundið að reyna að drepa niður innlendan sparnað sem er alls ekki of mikill?

Nú vill svo til að skuldir heimilanna í bönkunum eru nokkurn veginn sama tala, um 500 milljarðar, þar af er helmingurinn verðtryggður og hinn óverðtryggður — rétt rúmlega helmingur er verðtryggður. Hitt er væntanlega yfirdráttur, hin nýju óverðtryggðu lán og annað slíkt. En á sama tíma og bankarnir borga vexti langt undir verðbólgu sýna þeir gífurlegan hagnað.