140. löggjafarþing — 5. fundur,  6. okt. 2011.

störf þingsins.

[10:43]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Frú forseti. Ég kem hér upp vegna þess að mér finnst tími til kominn að ríkisstjórnin og stjórnvöld viðurkenni að þeim hafi mistekist að endurreisa bankana fyrir þá starfsemi sem þeir voru ætlaðir. Mér finnst stundum, og það hefur áður komið fram, að við upplifum kvikmyndina Dag múrmeldýrsins því að dag eftir dag, viku eftir viku, mánuð eftir mánuð og ár eftir ár erum við að vasast í sama pyttinum.

Nú er sú staða aftur komin upp að hæstv. forsætisráðherra ætlar að fara að skoða skuldir heimilanna. Ég verð að segja alveg eins og er að það er með ólíkindum ef við ætlum að fara aftur í það sex mánaða ferli sem farið var á síðasta vetri. Ég verð líka að segja að mér finnst ógnvekjandi sá samhljómur sem er hjá hæstv. forsætisráðherra og bankastjórum landsins. Hvað verður sagt? Við höfum staðið fyrir ótal úrræðum. Við höfum gert allt sem við getum. Það er ekki meira svigrúm en það er sjálfsagt að skoða það aftur.

Það er einfaldlega ekki nógu gott.

Í ágætri fyrirspurn hv. þm. Einars K. Guðfinnssonar um afskriftir í bönkunum kom fram að tæpir 30 milljarða hefðu verið afskrifaðir af versluninni í landinu, rúmir 15 milljarðar af iðnaði, landbúnaði og öllum matvælaiðnaði og 10 milljarðar af sjávarútvegi. Engu að síður kom frétt í ríkisfjölmiðlinum RÚV í gær sem fjallaði um 336 milljarða afskriftir þar sem 170 milljarðar höfðu verið afskrifaðir hjá fjárfestingarfélögum og eignarhaldsfélögum og hafði aðeins um 2,5 milljörðum, þ.e. 1% í þessum sjö fyrirtækjum, verið breytt í hlutafé. En aðalatriðið var að 13 milljarðar voru afskrifaðir hjá fimm fyrirtækjum í sjávarútvegi en þar hafi engu verið breytt í hlutafé og sagt að eigendur ættu allt þar.

Í verslun og þjónustu voru afskrifaðir 89 milljarðar í 13 fyrirtækjum (Forseti hringir.) þar sem 9 milljörðum var breytt í hlutafé, eða 7%. Hver er forgangsröðunin í þessu landi? Á ekki að fara að taka á þeim stóru fjárhæðum sem horfið hafa út úr bankakerfinu? (Forseti hringir.) og er ekki svigrúm til að láta eitthvað (Forseti hringir.) af þeim peningum renna til heimilanna í landinu?