140. löggjafarþing — 5. fundur,  6. okt. 2011.

fjárhagsstaða heimilanna -- málefni háskólanna -- ráðning forstjóra Bankasýslunnar o.fl.

[10:45]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr):

Forseti. Nú í upphafi þings eru margir þingmenn að leggja fram þingmál eins og eðlilegt er og óska eftir meðflutningi. Þessi mál eru oft send manna á milli í tölvupósti og óskað eftir meðflutningi og er ágætt að gera það þannig, en svo berast svörin. Þá segja margir: Mér líst nú ágætlega á málið en ég ætla að bera það upp við þingflokkinn. Eða jafnvel: Ég ætla að fá leyfi frá þingflokknum.

Í stjórnarskrá íslenska lýðveldisins stendur í 48. gr.:

„Alþingismenn eru eingöngu bundnir við sannfæringu sína og eigi við neinar reglur frá kjósendum sínum.“

Ég velti fyrir mér: Stenst það stjórnarskrána að þingflokkar á Alþingi geti sett hömlur á það hvaða mál þingmenn leggja fram, eru meðflutningsmenn að eða styðja?