140. löggjafarþing — 5. fundur,  6. okt. 2011.

fjárhagsstaða heimilanna -- málefni háskólanna -- ráðning forstjóra Bankasýslunnar o.fl.

[10:47]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Það var mjög athyglisvert sjónarmið sem kom fram hjá hv. þm. Helga Hjörvar að það gæti verið gott að láta sparifé brenna upp tímabundið vegna þess að það örvaði neyslu. Það gleður örugglega alla þá Íslendinga sem hafa sýnt sparsemi og ráðdeildarsemi gegnum tíðina að stefnan sé að reyna að minnka sparnað. En það er ekki tímabundið ástand, það er búið að vara nokkuð lengi. Ég hugsa að vextir hafi verið neikvæðir á óverðtryggðum innlánum frá því töluvert fyrir hrun, og meginhluti innlána er óverðtryggður. Af hverju skyldi það vera, frú forseti að þrír fjórðu af innlánum sé óverðtryggður? Vegna þess að ef menn ætla að verðtryggja innlán þurfa þeir að binda það í þrjú ár. Ef þeir binda það í þrjú ár, verða þeir að treysta því að bankinn standi í þrjú ár. Traustið er bara ekki meira en þetta.

Mér finnst það vera blaut tuska framan í sparifjáreigendur að segja að það sé í lagi að láta þá tapa á því að spara. Nú er sparnaður ekkert yfirfljótandi. Íslendingar spara 500 milljarða. Skyldusparnaðurinn í lífeyrissjóðunum er 2.000 milljarðar, fjórum sinnum meiri. Ég fullyrði að í fáum löndum í heiminum er sparnaður heimilanna eins lítill og hér á landi enda kemur í ljós þegar kreppa skellur á að allir eru bara á vonarvöl vegna þess að þeir spara ekki, þeir skulda. Það er þekkt að þegar menn lenda í vandræðum er slæmt að skulda, það er betra að eiga sparifé. Vandræðin geta verið ýmisleg; atvinnuleysi, veikindi, skilnaður, þannig að fólk á almennt séð að eiga miklu meiri sparnað.

Ég hefði vænst þess að ríkisstjórnin og hv. formaður efnahags- og viðskiptanefndar gæfu þá yfirlýsingu að þeir ætluðu að reyna að stuðla að því að menn töpuðu ekki á því að spara. En auðvitað er þetta sök bankanna. Þeir ákveða þá vexti sem greiddir eru og þeir ættu náttúrlega að sýna sóma sinn í því að borga meira til heimilanna sem eiga innstæður, eins og þeir gera við skuldarana. Það er borgað heilmikið í niðurskrift á skuldum.