140. löggjafarþing — 5. fundur,  6. okt. 2011.

staða lögreglunnar og löggæslumála.

[11:03]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Hv. þingmaður beinir til mín mjög skýrum og afmörkuðum spurningum og ég skal leitast við að svara þeim.

Tel ég þá stöðu sem uppi er innan lögreglunnar í kjaramálum viðunandi?

Að sjálfsögðu geri ég það ekki. Á meðan óánægjan er eins rík í röðum lögreglumanna og nú er er það ekki ásættanlegt eða viðunandi, enda hefur verið boðað til og hafið samráðsferli við forsvarsmenn Landssambands lögreglumanna af hálfu fjármálaráðuneytisins og innanríkisráðuneytisins. Fóru fram fundir í síðustu viku og verður framhald á. Það er mjög mikilvægt að leiða þessi deilumál til lykta inn í framtíðina með viðunandi hætti þannig að lögreglan geti unað vel við sinn hag. Lögreglumenn búa við annan kost en ýmsar aðrar stéttir, þeir hafa ekki verkfallsrétt, hafa ekki haft hann um langan tíma, þ.e. frá því á níunda áratug síðustu aldar, og fara ákvarðanir um kjör þeirra inn í annað ferli en hjá öðrum stéttum. Reynt er að ná samningum og ef það tekst ekki fer það inn í ferli Kjaradóms. Þessi mál eru öll til skoðunar og þurfa að vera þannig að við fáum viðunandi lausn. Lögreglumenn sinna mjög mikilvægum störfum og afar þýðingarmiklu hlutverki í samfélagi okkar eins og við þekkjum öll, fást við erfið verkefni, og það er mikilvægt að þeir búi við kjör sem þeir geta vel unað við.

Hv. þingmaður spyr hvort ég telji fjárlagafrumvarpið fela í sér fullnægjandi fjárveitingar til lögreglunnar í ljósi þeirrar skerðingar sem þar hefur orðið á undanförnum árum.

Hér vil ég vanda mig í svarinu. Það má segja um nánast alla starfsemi á vegum hins opinbera sem sætt hefur miklum niðurskurði á undanförnum árum að hún er aðþrengd. Það á við um heilbrigðisþjónustuna, um ýmis félagsleg verkefni og það má segja um margar aðrar stéttir en lögregluna að þar ríkir líka mikil óánægja vegna kaupmáttarhraps sem orðið hefur. Þeir sem njóta þjónustunnar hafa einnig kvartað vegna þess að dregið hefur úr henni á ýmsum sviðum. Við þekkjum öll ástæðurnar, það er tekjufall ríkissjóðs og sveitarfélaga vegna hrunsins í fjármálakerfi þjóðarinnar og í framhaldinu einnig hjá hinu opinbera.

Ég sagðist vilja vanda mig í svarinu. Annars vegar erum við að tala um hvernig við vildum helst að þessi mál gætu þróast og hver staða þeirra væri. Við vildum að sjálfsögðu að staðan væri betri, en hv. þingmaður var nákvæmur í orðalagi sínu, hann talaði um öryggismörk. Það er kannski það sem skiptir máli hér. Ég tel að við séum ekki komin að þeim landamærum. Ef við færum yfir þau væri ekki forsvaranlegt að grípa til þeirra ráðstafana sem við erum enn að gera.

Ég vil leggja áherslu á eitt, þegar litið er til annarra stofnana sem heyra undir innanríkisráðuneytið er niðurskurðurinn hjá löggæslunni og réttarkerfinu minni en annars staðar. Við reynum að hlífa löggæslunni sem þó þarf almennt að sæta niðurskurði upp á 1,5%. Við hlífum henni meira en öðrum þáttum sem heyra undir ráðuneytið.

Hið sama á við um réttarkerfið og í sumum tilvikum setjum við ekki fram neinar niðurskurðar- eða hagræðingarkröfur. Nefni ég þar til dæmis embætti ríkissaksóknara. En ég tek undir með hv. þingmanni, og við hljótum öll að gera það, að við þurfum að sjálfsögðu að vera á tánum þegar heilbrigðiskerfið er annars vegar, félagsþjónustan og að sjálfsögðu löggæslan og réttarkerfið sem eru hornsteinar í samfélaginu.