140. löggjafarþing — 5. fundur,  6. okt. 2011.

staða lögreglunnar og löggæslumála.

[11:08]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Lögreglumenn vinna úti um allt land störf sín af fagmennsku, lagni og stillingu. Þetta höfum við ekki hvað síst séð í þeim erfiðleikum sem íslenska þjóðin hefur upplifað á síðustu árum. Þessi vinnubrögð hefur íslenskur almenningur svo sannarlega kunnað að meta, enda nýtur lögreglan mests trausts af opinberum stofnunum samkvæmt könnun Capacent Gallup. Það getum við hins vegar ekki sagt um okkur sem störfum hér.

Álagið hefur þó verið mjög mikið og á sama tíma hefur ríkt mikil óvissa um hvert stefnir í skipan lögreglumála. Hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson hefur því lagt fram þingsályktunartillögu sem er á dagskrá í dag um gerð löggæsluáætlunar fyrir Ísland. Með henni yrði skilgreint það öryggi og sú þjónusta sem við viljum að lögreglan veiti íslenskum almenningi. Á þeim grundvelli yrði mannaflaþörf lögreglunnar skilgreind og þar af leiðandi þörf lögreglunnar fyrir fjármuni. Við mundum skilgreina þjónustuna úti um land, ekki bara fyrir höfuðborgarsvæðið heldur líka landsbyggðina.

Víða erlendis eru löggæsluáætlanir samþykktar af þingum viðkomandi ríkja og má nefna að norska þingið hefur um árabil samþykkt löggæsluáætlun í þeim anda sem hér er verið að tala um. Allt of oft hafa ný embætti eða stofnanir orðið til eða verið lagðar niður nokkrum árum síðar, allt eftir geðþótta þess meiri hluta sem þá ríkir, ráðherra eða fjárhag ríkisins hverju sinni. Það er von okkar að þessi nefnd yrði þverpólitísk til að koma í veg fyrir þennan hringlanda eða lítt ígrundaðar ákvarðanir í þessum mikilvæga málaflokki. Löggæsluáætlun og sá aðbúnaður sem við búum lögreglunni verður að vera í mikilli sátt á milli flokka til að tryggja stöðugleika í þeirri þjónustu og því öryggi sem lögreglan veitir okkur.

Við skulum taka hér lögregluna til fyrirmyndar, við skulum sýna fagmennsku, lagni og stillingu og gerum þannig lögreglunni kleift að tryggja öryggi íslensks almennings.