140. löggjafarþing — 5. fundur,  6. okt. 2011.

staða lögreglunnar og löggæslumála.

[11:17]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Birgi Ármannssyni kærlega fyrir að hefja þessa umræðu hér. Málefni lögreglunnar eru okkur þingmönnum sífellt hjartans mál því að við sjáum hversu alvarlega er búið að lögreglunni. Það er fyrst og fremst stjórnvalda að tryggja að lögreglan hafi nægilegt fjármagn til að geta sinnt hinu lögbundna hlutverki sínu.

Mér finnst eins og það sé sífellt byrjað á vitlausum enda. Auðvitað þurfti að fara í mikinn niðurskurð eftir hrunið sem varð hér á haustdögum 2008 en það var lagt af stað í að kroppa í kerfið sem var í stað þess að fara í grunninn, leysa vandamálin innan frá og gera kröfu um að það yrði á einhvern hátt stokkað upp.

Lögreglan gerði sitt besta í því, en sífellt berast af því fregnir að ríkisstjórnin geri niðurskurðarkröfu á lögregluna. Þess vegna fagna ég því hversu jákvæða umræðu tillaga til þingsályktunar um grundvallarskilgreiningar löggæslu á Íslandi og gerð löggæsluáætlunar fyrir Ísland allt fær hér í þessum umræðum um stöðu lögreglunnar. Þessa tillögu flytja þingmenn Framsóknarflokksins auk nokkurra þingmanna Sjálfstæðisflokksins. Það er einlæg von mín að þetta geti orðið upphafið að því að öryggisstig, þjónustustig, mannaflaþörf og þörf lögreglunnar fyrir fjármagn komi til með að skýrast til framtíðar, að þá verði byrjað á nýjum grunni og að framkvæmdarvaldið átti sig þá á því hvert hlutverk lögreglunnar er og síðast en ekki síst tryggi til hennar fjármagn. Ekki veitir af. Skora ég að lokum á hæstv. ríkisstjórn að ganga strax til samninga við lögreglumenn og koma kjaramálum þeirra á hreint. Eins og kom fram í máli hæstv. innanríkisráðherra hafa lögreglumenn ekki verkfallsrétt. Oft var þörf en nú er nauðsyn, (Forseti hringir.) frú forseti, að koma þessum kjaramálum á hreint.