140. löggjafarþing — 5. fundur,  6. okt. 2011.

staða fangelsismála og framtíðarsýn.

[11:32]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég þakka þessar fyrirspurnir og vil hughreysta hv. þingmann með því að ríkisstjórnin hefur mjög skýra stefnu í þessum efnum og hefur tekið eftirfarandi ákvarðanir:

23. ágúst sl. var ákveðið að hefja þegar í stað vinnu við undirbúning að 56 rýma fangelsi á Hólmsheiði. Þessi ákvörðun byggir á heimild í 6. gr fjárlaga 2011, tölulið 6.12 þar sem fram kemur að heimilt sé að kaupa eða leigja hentugt húsnæði fyrir gæsluvarðhaldsfanga á höfuðborgarsvæðinu og selja núverandi húsnæði við Skólavörðustíg 9 og Kópavogsbraut 17. Þetta eru heimildarákvæði sem við eigum án efa eftir að taka til frekari umræðu í þinginu, einkum varðandi Skólavörðustíginn. Komið hafa fram óskir og hugmyndir um að því húsnæði verði breytt í safn og að það megi hugsanlega einnig nota til annarra hluta.

Hv. þingmaður segir að þessi ríkisstjórn aðhafist ekki í þessum efnum. Allt frá því á sjötta áratug síðustu aldar hafa verið upp áform um að leggja af fangelsið við Skólavörðustíg. Einnig hefur verið litið á fangelsið í Kópavogi sem bráðabirgðalausn. Það er fyrst núna hins vegar sem verið er að taka ákvörðun um að breyta þessu. Um þessar mundir sitja 154 einstaklingar í fangelsi á Íslandi. Á biðlista eru um 370 manns. Við teljum að með lagabreytingum sem Alþingi samþykkti fyrir fáeinum dögum sem opna á að dómar verði fullnustaðir utan veggja fangelsanna muni þessir listar styttast um 100, bara með þeirri lagabreytingu. Þarna er sem sagt aftur gripið til markvissra ráðstafana.

Hins vegar segi ég að ef við frestum enn frekar þeim framkvæmdum sem við höfum nú ákveðið að ráðast í og hefjum að nýju upp deilusönginn á Alþingi blasir við neyðarástand. Við rekum Hegningarhúsið við Skólavörðustíg á undanþágum eins og hv. þingmaður benti á. Það eru góðar líkur á því að þar á fáist framlenging. Það er einnig undanþáguákvæði um fangelsið í Kópavogi af allt öðrum ástæðum, ekki vegna þess að húsnæðið sé eins slæmt og Hegningarhúsið heldur vegna þess að fangelsið er í miðju íbúðahverfi og af því er óhagræði fyrir íbúa. Að sjálfsögðu snýr það einnig að mannréttindum fanganna þannig að það er brýnt að breyta þessu. Við erum að ráðast í breytingar. Okkar ákvarðanir byggja á markvissum athugunum sem framkvæmdar hafa verið um nokkurt árabil þar sem farið hefur verið í saumana á fjárhagslegum þáttum þessa.

Niðurstaðan er sú að langódýrasti og hagkvæmasti kosturinn sé að byggja fangelsi á höfuðborgarsvæðinu. Ástæðan fyrir því að Hólmsheiðin varð fyrir valinu er að þar stendur okkur lóð til ráðstöfunar. Það er búið að skipuleggja svæðið, nokkuð sem á ekki við um aðra kosti sem einnig hafa verið uppi í þessari umræðu. Við teljum að við séum á sama hátt og ég gat um í umræðum áðan um löggæsluna að fara vel með almannafé og ráðast í aðgerðir sem koma til með að gagnast þessum málaflokki sem allra best.