140. löggjafarþing — 5. fundur,  6. okt. 2011.

staða fangelsismála og framtíðarsýn.

[11:43]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Frú forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu í dag. Í máli hæstv. ráðherra kom fram að ef við tækjum áfram á þessari nánast óþörfu umræðu í þinginu yrði það til þess að fresta ákvörðun sem væri afleitt en hefði gerst áratugum saman. Staðreyndin er reyndar sú að þessar hugmyndir hafa iðulega komið upp hjá ráðherrum dómsmála en við nánari skoðun hafa þeir komist að því að skynsamlegast og best væri að byggja upp þjónustuna við Litla-Hraun. Þeim hefur því miður ekki enst örendi í starfi til að hrinda áformunum í framkvæmd og svo byrjar ballið alltaf upp á nýtt.

Mitt mat er að þarfagreining eða sundurliðun hljóti að þurfa að fara fram á þeirri þörf hvort kvennafangelsi þurfi og þá hve mörg pláss, hvað bráðagæsluvarðhaldið þarf að vera stórt, hvað öryggisrýmin eiga að vera mörg og hvar gæsluvarðhald og síðan vistun á að vera. Það er ekki boðlegt að koma hér fram trekk og trekk og halda því fram að ódýrasti og hagkvæmasti kosturinn sé Hólmsheiði og vísa til þess að það sparist svo mikill akstur. Því hefur margoft verið hent í höfuðið á hæstv. ráðherrum sem hafa komið með það fram. Það stenst ekki.

Hæstv. ráðherra sagði í ræðu sinni að skipulagið væri búið og lægi fyrir á Hólmsheiði. Liggur það ekki fyrir á Litla-Hrauni? Er ekki hægt að hefja þar framkvæmdir? Þar liggja einmitt fyrir hugmyndir, bæði stórar og smáar. Það væri til dæmis hægt að tvöfalda gæsluvarðhaldsrýmið í dag fyrir 100–150 milljónir. Er það ekki skynsamlegri leið en að fara að framkvæma fyrir 2–2,5 milljarða hús sem er allsendis óskiljanlegt að eigi að vera svo óskaplega hagkvæmt og þægilegt að hafa þegar á að fara að keyra hálfa leiðina austur fyrir fjall alla daga. Það sparast ekki neitt.