140. löggjafarþing — 5. fundur,  6. okt. 2011.

staða fangelsismála og framtíðarsýn.

[11:45]
Horfa

Davíð Stefánsson (Vg):

Frú forseti. Ég vil nota þetta tækifæri til að fagna áformum um nýja fangelsisbyggingu á Hólmsheiði. Það hefur verið sárt og undarlegt að fylgjast með því úr fjarlægð svo árum skiptir hvernig skortur á fangelsisrýmum hefur staðið samfélagi okkar fyrir þrifum, fylgjast með því hvernig stjórnvöld hefur skort vilja eða kjark til að landa málinu farsællega. Það hlýtur að vera skref sem hægt er að fagna þvert á flokka og hlutaðeigendur.

Bygging er samt aðeins bygging. Fangelsi á Hólmsheiði er vissulega mikilvægt í praktískum tilgangi en með því svigrúmi sem myndast þegar biðtími brotamanna eftir afplánun minnkar og aðbúnaður þeirra batnar eigum við að nota tækifærið til að færa okkur enn nær nútímanum í fangelsismálum. Jákvæð teikn eru á lofti. Á haustþingi nú í september var til dæmis samþykkt lagafrumvarp um rafrænt eftirlit. Í greinargerð með lagafrumvarpinu kemur meðal annars fram, með leyfi forseta:

„Markmið þessa úrræðis er meðal annars að föngum gefist kostur á því að aðlagast samfélaginu smám saman áður en til lausnar úr fangelsi kemur. Er þetta afar mikilvægt þar sem þeir geta stundað vinnu eða nám á daginn og verið í nánum tengslum við fjölskyldu og vini meðan á dvölinni þar stendur.“

Við eigum að þora að færa okkur enn meira í þessa átt því að jafnvel þótt við teljum okkur vera langt komin sem þjóð og sem mannkyn á siðferðislegum forsendum eimir enn eftir af því viðhorfi að brotamenn og -konur eigi að hljóta refsivist en ekki betrunarvist. Það viðhorf er sem betur fer á undanhaldi, við erum farin að skilja betur og betur að þeir sem gerast brotlegir við lög þurfa fyrst og fremst mannlega aðstoð og stuðning við að komast aftur inn í samfélagið.