140. löggjafarþing — 5. fundur,  6. okt. 2011.

staða fangelsismála og framtíðarsýn.

[11:48]
Horfa

Árni Johnsen (S):

Virðulegi forseti. Það er alrangt hjá hæstv. innanríkisráðherra að það sé ódýrasti og hagkvæmasti kosturinn að byggja nýtt fangelsi á Hólmsheiði. Það er ódýrast og hagkvæmast að byggja við Litla-Hraun. Litla-Hraun er byggt sem öryggisfangelsi þó að það sé ekki þörf fyrir nema um 10–20% fanga að vera í öryggisfangelsi. Þar er sá þáttur byggður upp nú þegar sem er dýrari þátturinn, annars konar þáttur í gæsluvarðhaldsbyggingum.

Svo hefur verið bent á að í Rockville í Sandgerði eru tilbúnar lóðir og lagnir. Það er aðgengilegt, það er ódýrt að ganga að því ef menn vildu nýta það til sparnaðar.

Hólmsheiði er einhver ómanneskjulegasti staður sem hægt er að hugsa sér á Íslandi fyrir fangelsisbyggingu. Ég er alveg klár á því að hæstv. innanríkisráðherra mundi ekki tala svona ef hann hefði komið á Hólmsheiðina. (Gripið fram í.) Ja, þá hefur hann verið í einhverri vímu þar. Það er ekki góður staður, það er alveg klárt mál, þetta er ruslpartur af heiðinni þar sem er verið að tala um að byggja fangelsi.

Það eru margir möguleikar til í alvöruuppbyggingu í þessu. Eins og hv. þm. Ólöf Nordal benti á vantar heildarsýnina, markmiðin, næstu skref og hvernig á að takast á við þennan vanda. Af hverju er til að mynda ekki skoðað nánar að hver fangavörður hafi á sínum snærum tvo fanga án þess að hýsa þá í fangelsi? Þetta eru hlutir sem mundu henta að mörgu leyti á Íslandi í samfélagshjálp og öðru og óþarfi að hlæja að því. Það er alveg klárt mál að þetta gæti verið mjög eðlilegt fyrir íslenskt samfélag. Það eru margir svona þættir, (Forseti hringir.) annar húsakostur o.fl. Hólmsheiði er því miður patentlausn sem boðar ekki gott.