140. löggjafarþing — 5. fundur,  6. okt. 2011.

meðferð frumvarps stjórnlagaráðs til stjórnarskipunarlaga.

6. mál
[12:14]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er svo margt sem ferst fyrir í iðu daganna og glímunni sem menn taka við afleiðingar kreppunnar að stundum glepst mönnum sýn. Ég held að fæstir hafi gert sér grein fyrir því hversu mikið brautryðjendaverk er fólgið í þeirri vinnu sem stjórnlagaráðið hefur innt af höndum. Ég tel líka að það sé eitt af þeim kraftaverkum sem fara fram hjá mönnum hversu vel ríkisstjórninni hefur tekist að skýla þeim sem verkið unnu og niðurstöðunni. Það fer ekki fram hjá neinum að harðar atlögur eru auðvitað í gangi gegn þeim breytingum sem þar eru lagðar til því að þær eru grundvallarbreytingar.

Ég tek alveg skýrt fram að ég er ekki sammála öllu sem kemur fram í tillögunum sem ráðið hefur sent frá sér en ég tek ofan fyrir þeirri vinnu sem þar speglast og sömuleiðis segi ég alveg skýrt að þar er um að ræða nokkrar djúpristar grundvallarbreytingar sem ég vil mikið á mig leggja til að komist til framkvæmda, sumar raunar þess eðlis að fyrir þeim höfum ég og skoðanasystkini mín barist áratugum saman hér í þessum sölum.

Að því er varðar þá tillögu sem hv. þm. Þór Saari hefur hér mælt fyrir ætla ég ekki að lýsa skilyrðislausum stuðningi við hana en vil hins vegar segja að ég tel hana mjög jákvæða. Ég tel að sá farvegur sem þar er búinn til sé mjög hugvitsamlegur. Ég tel að það sé mjög mikilvægt að fara þá leið að þjóðin geti sagt sitt álit á því sem fyrir liggur áður en þetta verður sent í endanlegum búningi héðan. Ég mun sem þingmaður, vitaskuld bundinn samkvæmt stjórnarskrá af minni sannfæringu, taka sterkt tillit til þess.

Eins og hv. þingmaður sagði er þetta í góðum samhljómi við það sem formaður Samfylkingarinnar hefur ítrekað sagt og ég held að ég geti sagt að Samfylkingin (Forseti hringir.) sé jákvæð gagnvart þessu frumvarpi. (Forseti hringir.)