140. löggjafarþing — 5. fundur,  6. okt. 2011.

meðferð frumvarps stjórnlagaráðs til stjórnarskipunarlaga.

6. mál
[12:16]
Horfa

Flm. (Þór Saari) (Hr) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. utanríkisráðherra góð orð til þessa máls. Ég er sammála hæstv. ráðherra um að ég er heldur ekki fyllilega sáttur við allar þær greinar sem eru í frumvarpinu til stjórnarskipunarlaga. Það ber að vissu leyti merki þess að það er samið með það í huga að ná samkomulagi allra 25 meðlima stjórnlagaráðs frekar en að samþykkja einstakar greinar í einhvers konar ágreiningi og leggja þá fram tvær eða fleiri útgáfur af hverri grein. Það er einfaldlega aðferð og leið sem stjórnlagaráðið kaus að fara. Þess vegna tel ég mikilvægt eins og fram kemur í þessari tillögu að sjö manna sérfræðinganefnd, stjórnlaganefndin, setjist yfir það og skoði af gagnrýni hvar stangist á öll þau mismunandi samkomulagsmál sem sátt náðist um. Á einhverjum stöðum í þessu frumvarpi virðist sem einstök atriði stangist á og þá yrði kannski ekki auðvelt fyrir stjórnlagaráðið sjálft að fá málið aftur í fangið til að greiða úr þeirri flækju, ef til staðar er.

Þess vegna kom upp sú hugmynd að nota stjórnlaganefndina sem fyrsta skref í málinu sem ber svo breytingartillögur undir stjórnlagaráðið sem fer svo með það aftur til stjórnlaganefndarinnar sem sér um kynningu á því um allt land og gerir svo tillögur um það með hvaða hætti það fer í þjóðaratkvæðagreiðslu.