140. löggjafarþing — 5. fundur,  6. okt. 2011.

meðferð frumvarps stjórnlagaráðs til stjórnarskipunarlaga.

6. mál
[12:23]
Horfa

Þráinn Bertelsson (Vg):

Frú forseti. Þessi tillaga til þingsályktunar hygg ég að geti verið sú leið sem samstöðu mætti ná um í þinginu til að hnika í átt til enda þeirri vinnu sem nú stendur yfir við að setja íslenska lýðveldinu nýja stjórnarskrá. Þannig er að þótt sú stjórn sem nú situr hafi á margan hátt skilað miklu verki tel ég mig verða varan við ákveðið óþol meðal þjóðarinnar, óþol eftir því að einhverjar þjóðfélagsbreytingar verði hér á landi, ekki aðeins að hreinsað verði til í rústunum sem 18 ára stjórnartíð Sjálfstæðisflokksins skildi eftir sig hér á landi heldur verði eitthvað nýtt byggt upp. Að sjálfsögðu tekur það sinn tíma, ekki síst hjá þjóð sem hefur ekki einu sinni efni á að byggja yfir fanga. Sú stjórnarskrárvinna sem farið hefur fram fór fram að kröfu sem kom fram mjög skýrt í svonefndri búsáhaldabyltingu. Ný stjórnarskrá fyrir lýðveldið okkar er í mínum huga einn áfanginn að því að reisa hér nýtt, betra og réttlátara þjóðfélag.

Þær hugmyndir sem liggja frammi í þessari tillögu til þingsályktunar hafa minn stuðning. Ég kem hér upp, ekki vegna þess að ég hafi í sjálfu sér miklu við að bæta ágæta ræðu 1. flutningsmanns þessarar tillögu, hv. þm. Þórs Saaris, heldur kem ég hér upp til að leggja áherslu á það sem ég og mjög margir fleiri í þessu þjóðfélagi telja grundvallaratriði, þ.e. að stjórnarskrártillaga sú sem kemur frá stjórnlagaráði fái að fara í atkvæðagreiðslu hjá þjóðinni án þess að aðrir aðilar hafi þar um vélað. Sú tillaga verður að koma frá stjórnlagaráði.

Ég er mjög feginn því að þeirri góðu nefnd sjö sérfræðinga sem við köllum gjarnan stjórnlaganefnd skuli vera ætlað að koma aftur að störfum um þau stjórnarskrárdrög sem nú liggja frammi því að á þeim má sjá ýmsa annmarka, hluti sem reka sig hver á annars horn, og sömuleiðis og að sjálfsögðu er bullandi ágreiningur um mörg atriði sem á engan hátt þurfa að vera útrædd af hálfu stjórnlaganefndar og stjórnlagaráðs. Annaðhvort væri nú ef hægt væri að semja stjórnarskrá sem hvert einasta mannsbarn væri sátt við að öllu leyti. Aðalatriðið er að þjóðin fái að segja sitt álit, kveða upp sinn dóm yfir því verki sem Alþingi, sem er stjórnarskrárgjafinn samkvæmt lögum, tók þann kost að útvista hjá stjórnlaganefnd og síðan stjórnlagaráði.

Ég get alveg séð fyrir mér þjóðaratkvæðagreiðslu um stjórnarskrá sem yrði þannig að greidd yrðu atkvæði um einstaka kafla stjórnarskrárinnar. Ég get líka séð fyrir mér að stjórnlagaráð, stjórnlaganefnd eða jafnvel Alþingi setti fram valkosti við einstaka kafla þannig að þjóðin gæti tekið afstöðu til mismunandi valkosta í þessu ferli. Hugsanlega tekst mönnum ekki að semja neina heildstæða valkosti og þá er allt gott með það, þá verður tillaga stjórnlagaráðs borin undir atkvæði, en ég velti upp þeim möguleika að stjórnlagaráð geti skilað af sér fleiri valkostum en einum þannig að valið geti staðið um a, b og c, en ekki bara sammála eða á móti.

Ég er ákaflega glaður yfir því að þetta mál skuli þó vera komið jafnlangt og raun ber vitni. Ég er ákaflega glaður yfir því að merkja að að minnsta kosti stjórnarflokkarnir og Hreyfingin virðast áfram um að koma þessu máli í höfn. Mér finnst eitt kjörtímabil, fjögur ár, ekki langur tími til að semja annað eins grundvallarplagg fyrir þjóðina og stjórnarskrá er. Ég segi fyrir mitt leyti að þau stjórnarskrárdrög sem nú liggja frammi hafa að mínu mati nokkra galla. Ef ég stæði engu að síður eingöngu frammi fyrir þeim valkosti að samþykkja þessi stjórnarskrárdrög sem ég er ekki sáttur við að öllu leyti eða vísa þeim frá mundi ég samþykkja þau, m.a. vegna þess að verði þau samþykkt verður héðan í frá auðveldara að breyta stjórnarskránni en nú er í gildi. Sú flókna leið sem núverandi stjórnarskrá mælir fyrir um að fara skuli til að breyta stjórnarskrá er óþolandi og ólíðandi í nútímaþjóðfélagi. Breytingar núna eru örar og við þurfum stjórnarskrá sem lifir með þjóðinni, svarar þörfum hennar og vilja en er ekki sögulegur helgidómur sem menn bera djúpa virðingu fyrir en finna litla samkennd með, kannski líkt og boðorðin tíu. Einhvern tímann sagði dómsmálaráðherra Íslands að ákveðin lög væru barn síns tíma. Ég held að segja megi um boðorðin tíu að í ljósi nútímans virðast þau barn síns tíma, enda hefur ekkert heyrst frá þeim sem þau setti um breytingartillögur.

Ég er einfaldlega glaður á þessari stundu yfir því að þetta mál skuli þó vera í þeim farvegi sem það er í og mun að sjálfsögðu styðja þessa þingsályktunartillögu sem ég reikna með að minn flokkur geri einnig.